Efnisyfirlit

Öfga vinstri brjálæðingar!

   26. júlí 2024     2 mín lestur

Fyrir tveimur vikum var gerð launvígstilraun á forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum. Í kjölfarið komu fram fordæmingar gegn pólitísku ofbeldi og krafa um samstöðu. Tæpum tveimur vikum seinna er þessi sami frambjóðandi hins vegar farinn að ala á óeiningu og tala um “öfga vinstri brjálæðinga”, ofurfrjálslyndi og barnaaftökur.

Ég verð að segja að ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta eru sameiningarskilaboð. Hvernig er verið að ná saman um andstæð sjónarmið. Ég skil heldur ekki af hverju ofurfrjálslyndi er blandað inn í þessar uppnefningar.

Það er áhugavert með þessi ofur- og öfga- forskeyti. Ofur-frjálslyndi. Öfga-hægri. Öfga-vinstri.. Hvað þýðir þetta?. Öfga-hægri virðist vera einhvers konar uppnefni á þjóðernishyggju, sem er auðvitað algjört þvaður. Þjóðernishyggja er bara þjóðernishyggja - hún er ekkert sérstaklega hægri eða vinstri. Með réttu ætti öfga-hægri í raun að þýða “rosalega mikil einkavæðing” eða eitthvað slíkt. Sitt sýnist hverjum hvort það sé gott eða slæmt. Öfga-vinstri væri þá einhvers konar “rosalega mikill ríkisrekstur”.

Orð skipta máli. Hvert orð hefur ákveðna merkingu í málvitund okkar - og sú merking er mismunandi milli fólks. Mér finnst til dæmis öfga-frjálslyndi vera bara tiltölulega jákvætt hugtak á meðan öðrum finnst það örugglega verið mjög neikvætt. En það gæti líka verið af því að við deilum því ekki hvað okkur finnst að orðið frjálslyndi þýðir, hvað þá öfgarnar af því - en samt verðum við einhvern vegin að nota sama orð til þess að lýsa þessari mismunandi meiningu.

Þetta á við um mörg gildishlaðin orð. Það þýðir að við verðum að spyrja okkur í hvert skipti sem við sjáum slík orð hver meiningin á bak við þau sé í raun og veru. Meinar þessi forsetaframbjóðandi kannski bara vel þegar hann segir “öfga vinstri brjálæðingar”, er hann að ala á sundrungu eða er þetta kannski bara nákvæm notkun á þessum orðum í þessu tilfelli?

Tilefnið skiptir nefnilega máli. Það er mjög auðvelt að finna alls konar brjálæðinga, bæði í sögubókunum og í atburðum líðandi stundar. Forsetaframbjóðandinn sjálfur er líklega einn slíkur, ef við ætlum að vera alveg einlæg. Það er ákveðið brjálæði að hóta því að sprengja upp höfuðborgir annara þjóða ef þær haga sér ekki vel. En jafnvel þó það væri ekki ómálefnaleg lýsing að kalla forsetaframbjóðandann brjálæðing þá væri hún ekki hjálplegt fyrir umræðuna. Á sama tíma eru gerðar kröfur til stjórnmálamanna að tala skýrt.

Mér finnst að stjórnmálamenn eigi að tala skýrt og ekki að hræðast það að nota stór orð. En fólk verður að geta útskýrt af hverju það er málefnalegt að nota stóru orðin. Það er frekar einföld krafa. Þegar stóru orðin eru notuð þá er líka aldrei spurt hvort tilefnið til þess sé málefnalegt.