Geðþóttavald meirihluta
Eitt það helsta sem ég hef lært á þeim 7 árum sem ég hef verið á þingi er að kjörnir fulltrúar kunna almennt ekki starfið sem þau eiga að sinna. Kunna ekki muninn á opinberu og pólitísku valdi.
Kannski er það af því að við erum ennþá með konunglega stjórnarskrá, sem að kveður á um að “Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn” en einnig að “Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið.”
Hvernig er svo farið með þetta vald er það sem máli skiptir. Forsetinn er samkvæmt stjórnarskrá ábyrgðarlaus og ráðherrar eru gerðir ábyrgir í hans stað. Hvernig sú ábyrgð á framkvæmdarvaldinu virkar er svo nánar skilgreind í lögum. Hvernig er farið með löggjafarvaldið er hins vegar áhugaverðara, en samkvæmt stjórnarskrá eru “Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum”.
En hvað af þessu virðast kjörnir fulltrúar ekki kunna? Jú, það er munurinn á valdi ráðherra samkvæmt lögum og svo pólitísku valdi. Ráðherrar mega ekki taka konungslegar geðþóttaákvarðanir. Þeirra er pólitíska valið um hvaða löglegu leið á að velja í hverju máli fyrir sig og bera ráðherrar pólitíska ábyrgð á því vali. Þegar ráðherrar velja leið sem er ekki lögleg, þá þurfa ráðherrar að axla ráðherraábyrgð samkvæmt lögum.
Það er til dæmis stórkostlegt hirðuleysi að ráðherra gái ekki að hæfi sínu til þess að taka ákvarðanir. Það ætti að vera efst á öllum gátlistum þegar ráðherra er að velja úr þeim löglegu leiðum sem í boði eru hverju sinni.
Slíkar kröfur eru ekki gerðar til þingmanna. Það eina sem þingmenn þurfa að gæta að er að greiða ekki atkvæði í málum sem veita þeim persónulegan ábata umfram aðra. Að öðru leyti fara þingmenn eingöngu eftir sannfæringu sinni þegar greidd eru atkvæði á þingi. Þingmenn þurfa ekki að vera sérfræðingar í einu eða neinu nema eigin sannfæringu.
Þingið og notkun valds virkar hins vegar öðruvísi. Meirihluti þingmanna tekur sig saman og einokar í raun löggjafarvaldið. Ekkert þingmál minnihlutans komst einu sinni í atkvæðagreiðslu í þingsal. Þingmenn fengu ekki að tjá sannfæringu sína í 153 þingmálum minnihlutans á meðan 121 af 148 málum stjórnarflokkanna fóru í atkvæðagreiðslu og að auki voru 13 mál nefnda samþykkt. Fundir féllu niður í nefndum frekar en að taka fyrir þingmál minnihluta. Meirihlutinn hefur þverbrotið starfsreglur á þessu þingi í krafti meirihlutavalds síns - í krafti konungslegs geðþóttavalds, ef maður á að orða það eins skýrt og hægt er að hafa það.
Vissulega er það þannig að í lýðræði þá ræður meirihlutinn. En til þess þarf að minnsta kosti að kjósa um málin!