Efnisyfirlit

Baráttan fyrir réttlæti

   2. október 2024     2 mín lestur

„Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ er gömul útgáfa af gullnu reglunni sem snýst um það að gera öðrum ekki það sem maður vill ekki að aðrir geri sér. Þessi regla er undirstaða réttláts og sanngjarns samfélags. En gullna reglan ein og sér er ekki nóg, því fólk hefur mismunandi skoðanir á því hvað sé sanngjarnt. Til dæmis er dauðarefsing ekki leyfð á Íslandi, sem sýnir að við fylgjum ekki „auga fyrir auga“ nálguninni. Við höfum lært að refsing til jafns við glæp virkar ekki; fyrirgefning og endurhæfing eru mikilvægari.

Samfélagsmiðlar hafa byltingarkennt samskipti okkar og gefa hverjum sem er vettvang til að deila skoðunum sínum. Slúðrið nær nú til allra og mál geta orðið almenningsumræðunni að bráð. Við eigum að berjast fyrir réttlæti og þurfum ekki að þola ósanngirni. En við verðum líka að vanda okkur, taka ábendingum alvarlega og bregðast við af yfirvegun. Til þess höfum við löggæslu og dómskerfi.

En þegar lögin bregðast og ofbeldi fær að viðgangast óáreitt, oft vegna afskiptaleysis, þá tekur fólk málin í sínar hendur. Ef stofnanirnar geta ekki tryggt réttlæti, þurfum við sjálf að aðhafast – mótmæla og krefjast breytinga. Slíkar kröfur þarf að taka alvarlega, annars þarf fólk að mótmæla meira og öskra hærra. Mér sýnist við vera föst í þessum vítahring, þar sem ráðamenn virðast ráðalausir. Þrátt fyrir lagabreytingar og aukna fjármögnun í rannsóknum á kynferðisbrotum náum við ekki fram réttlæti sem samfélag.

Til að brjóta upp þennan vítahring þurfum við að endurskoða viðbrögð okkar við óréttlæti. Við þurfum að efla traust á löggæslu og dómskerfi, tryggja að mál séu rannsökuð faglega og að réttarkerfið sé skilvirkt. Menntun og fræðsla eru lykilatriði; með því að fræða fólk um réttindi sín og skyldur og um afleiðingar ofbeldis og óréttlætis, getum við stuðlað að betri skilningi og virðingu í samfélaginu. Einnig þarf að bæta stuðning við þolendur ofbeldis, bæði í formi sálrænnar aðstoðar og lagalegs stuðnings.

Stjórnvöld þurfa að sýna frumkvæði, hlusta í raun og veru og styðja þolendavænt samfélag. Það þarf að vera auðveldara fyrir fólk að leita réttlætis í gegnum dómskerfið – með betra aðgengi að gjafsókn og smákröfudómstólum. Lýðræðið krefst þess að valdhafar séu ábyrgir gagnvart fólkinu.

Á tímum samfélagsmiðla, þar sem frásagnir af meintu ofbeldi dreifast hratt, þurfum við að læra að finna samfélagslega fyrirgefningu. Með því að sýna þolendum skilning og stuðning, en einnig gefa gerendum tækifæri til að bæta fyrir mistök sín, getum við ræktað menningu samkenndar og bata.

Leiðin að réttlæti er stundum flókin en við megum aldrei hætta að berjast. Við þurfum að vera vakandi fyrir óréttlæti, styðja þá sem þurfa á því að halda og vinna saman að lausnum.