Efnisyfirlit

Er verðbólgan okkur í blóð borin?

   26. ágúst 2024     2 mín lestur

Aðeins um erfðaefni Framsóknar

Verðbólgan hefur verið umkvörtunarefni svo lengi sem ég man eftir mér, þannig að það var áhugavert að heyra tilgátu fjármálaráðherra um að það væri í DNA Íslendinga að sætta okkur við verðbólguna. Ef svo er þá er verðbólgan líklega íslenskari en allt íslenskt - meðfædd.

Hið rétta er auðvitað að með tilkomu Ólafslaganna árið 1979 var verðtryggingin innleidd á Íslandi. Ólafur Jóhannesson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, lagði fram lagafrumvarp sem veitti heimild til verðtryggingar. Framsókn leiddi í lög þá reglu að fjármagnseigendur skuli varðir með belti og axlaböndum.

En aftur að DNAinu. Sættum við okkur við háa verðbólgu? Ég get ekki séð það miðað við kröfurnar sem gerðar hafa verið í kjarasamningum að undanförnu. Miðað við áskoranir til stjórnvalda að taka til í efnahagsmálum. Launafólk sýnd mikla ábyrgð og festu með samþykkt nýrra langtímasamninga. Það er ekki í DNA almennings að sætta sig við verðbólgu heldur er óstjórn hluti af erfðaefni ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og VG. Fjármálaráðherra þarf ekki annað en að skoða eigin vinsælda- og traustsmælingar til að átta sig á að það er ekki í DNA fólks að sætta sig við hans efnahagsstjórn.

En verðbólgan hverfur ekki með einhverri töfralausn. Það eru samt nokkrar aðgerðir sem við getum farið í. Þær augljósustu eru gjaldeyrismálin og verðtryggingin.

Gjaldeyrissveiflurnar og óöryggið í kringum þær búa til hærra vaxtastig – einfaldlega af því áhættan í kringum þessa örmynt sem við erum með er hærri. Hærra vaxtastig gerir kröfu um meiri áhættu í fjárfestingum til þess að hægt sé að standa undir þessum hærri kröfum sem býr til meira óöryggi … það er svokallaður vítahringur. Þessi spírall óöryggis og áhættu bókstaflega býr til verðbólgu af því að fólk er alltaf að framtíðartryggja allt verðlag.

Verðtryggingin er annar vítahringur. Þegar allt er orðið verðtryggt þá þýðir það að ef eitthvað hækkar, þá hækkar allt annað í kjölfarið. Og af því að allt hækkaði þá mælist verðbólga og af því að það mældist verðbólga þá veldur verðtryggingin því að allt hækkar aftur … og svo framvegis.

Ef við ætlum að ná að losna við verðbólguna þá verðum við að taka til í bæði gjaldeyrismálunum og losa okkur við verðtryggingu. Það mun taka hagkerfið tíma til þess að endurstilla sig en það mun margborga sig til lengri tíma. Það er ekki afsakanlegt að bíða lengur, við verðum að losna við verðtrygginguna.

Þetta er uppgjafartónn hjá fjármálaráðherra. Uppgjöf gagnvart áratugalangri stefnu eigin flokks. Það er því kominn tími til þess að skipta um stefnu og fá nýja flokka í ríkisstjórn. Flokka sem þora að gera breytingar. Píratar þora.