Efnisyfirlit

78,5% aukning á hagnaði!?!

   7. ágúst 2024     2 mín lestur

Í síðustu viku var fjallað um að hagnaður Festar jókst um 78,5% á milli ára. Samfélagsmiðlar tóku við sér og hneyksluðust hressilega á þessari græðgi á meðan fólk glímir við háa vexti á lánum og háa verðbólgu. Skiljanlega - því 78,5% hækkun á gróða á milli ára lítur út fyrir að vera ansi hressileg hækkun. Þegar nánar er að gáð, hins vegar. Af því að einföld prósenta segir ekki alla söguna - þá skulum við skoða þetta nánar.

“Hagnaður fyrstu sex mánuði árs­ins nam tæp­um 1,2 millj­örðum og jókst um 78,5% milli ára en hann nam 647 millj­ón­um á sama tíma­bili síðasta árs.” Segir í frétt mbl.is. Um það bil 550 milljónir aukalega í hagnað. Það er ansi há upphæð á alla mælikvarða. Til samanburðar er það álíka mikið og var sett í framkvæmdasjóð ferðamannastaða allt árið í fyrra. Neytendur landsins eru í raun að borga 550 milljónum meira en á sama tíma í fyrra.

78,5% hækkun. 550 milljónum meira. Græðgi, er það ekki? Hinkrum aðeins við, þetta er ekki öll sagan. Einnig kemur fram í fréttinni að: “Vöru­sala nam 36 millj­örðum og jókst um 5,4% milli ára en hún nam 34 millj­örðum árið áður.” 1,2 milljarðar í hagnað af 36 milljarða króna í vörusölu eru 3,3% hagnaður. Verðbólgan er 6,33%. Matur og drykkjarvörur hafa hækkað um 6,24% þar sem vöruflokkarnir sem hafa hækkað mest eru kjötvörur. Nautakjöt og svínakjöt hefur hækkað um rétt rúmlega 8% á meðan lambakjöt hefur hækkað um heil 18,35%. Kartöflur hafa hækkað um rúmlega 21%, sælgæti um rúmlega 10% og súkkulaði um tæplega 16%!

Verðbólgan er lúmsk. Sérstaklega þegar hún er búin að vera há í langan tíma. Við þurfum stöðugt að uppfæra verðvitund okkar í samanburði við ráðstöfunartekjur. Ef við vorum áður að borga 25% af ráðstöfunartekjum okkar í húsnæði og borgum nú 100 þúsund krónum meira út af verðbólgunni eða háum stýrivöxtum - þá segir það okkur í rauninni ekkert nema við skoðum hlutfallið af ráðstöfunartekjum. Við gætum vel verið að borga fleiri, en verðlausari krónur. Við gætum þess vegna verið að borga minna hlutfall af ráðstöfunartekjum okkar í dag en fyrir 5 árum í húsnæði. Staðan í dag er að ársbreyting launa er 6%. Lægri en verðbólga - sem þýðir að jafnaði eru ráðstöfunartekjur okkar að rýrna.

Miðað við allt þetta, er 78,5% aukning á hagnaði - 550 fleiri milljónir - græðgi? Miðað við að þetta er bara 3,3% af heildinni og helstu sökudólgar verðbólgunnar er að finna annarsstaðar, þá er erfitt að fullyrða að svo sé. En 78,5% hækkun lítur illa út. Það er auðvelt að hoppa á græðgisvagninn gagnvart svona tölum. Þarna eru vissulega hækkanir, en ég myndi segja að þær séu innan óvissuvikmarka þess að hægt sé að ásaka fólk um græðgi. Tölfræðin villir stundum fyrir í svona dæmum - sem er ekki hjálplegt fyrir umræðuna.