Var verið að plata stjórnvöld?
Í Kastljósi í desember síðastliðnum lét umhverfisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarsson, eftirfarandi ummæli falla: „menn kannski átta sig ekki á að við Íslendingar erum núna komin með lausnir þegar kemur að kolefnisföngun. Bara hér á stað sem við öll þekkjum, Akranesi, þar er til dæmis stærsta varanlega kolefnisföngunarverkefni í heimi, Running Tide.“
Starfsemi fyrirtækisins snýst um að binda koltvíoxíð í hafinu með kalksteinshúðuðum kolefnisflothylkjum. Þá þegar átti ráðherrann að gruna að ekki væri allt með felldu hjá þessu fyrirtæki, enda hafði Umhverfisstofnun tilkynnt ráðherra að stofnunin hefði ekki lagaheimild til þess að hafa eftirlit með starfsemi fyrirtækisins, starfsemi sem væri ekki aðeins varp í hafið heldur næði hún langt úr fyrir rannsóknarleyfið sem Running Tide hafði tryggt sér. Ráðherra reyndist síðan vanhæfur til þess að taka við stjórnsýslukæru.
Sitjandi umhverfissráðherra í málinu, Bjarni Benediktsson, gekk þá í málið og komst að því þann 25. apríl á síðasta ári að umhverfisstofnun hefði rangt fyrir sér. Þetta væri bara alls ekki varp í hafið. Formaður Sjálfstæðisflokksins mætti og vængstífði eftirlitsstofnanir vegna þess að ráðherrar flokksins hrifust af glansmyndinni sem dregin var upp af forsvarsmönnum fyrirtækisins.
Heimildin birti nýlega viðtal við umhverfisráðherra þar sem hann svaraði því á hverju fullyrðingar hans um stórfenglegan umhverfisárangur verkefnisins væru byggðar: „Ég fékk þær bara frá forsvarsmönnum fyrirtækisins.“ Þegar ráðherra var spurður út í málið á þingi var fátt um svör og meira um ásakanir um að farið væri frjálslega með atriði málsins - án þess að það hafi verið nánar útskýrt.
Þetta virðist vera lenskan hjá núverandi ríkisstjórn - að treysta bara því sem þeim er sagt í blindni. Eftirlit með laxeldi er víst með besta móti. Allt var í himnalagi þegar Íslandsbanki var seldur - best heppnaða útboð Íslandssögunnar hvorki meira né minna. Það er í fína lagi að brjóta stjórnsýslulög eða skipa góða vini í embætti - og þess háttar. Það þarf bara einhver að segja þeim að allt sem þau geri sé rétt og gott og þá þurfi ekki að hafa áhyggjur af neinu.
Undirritaður hefur óskað eftir því að gert verði grein fyrir aðkomu stjórnvalda að þessu máli og hvort það skipti máli fyrir fjárheimildir ríkissins, en fyrirtækið gerði ráð fyrir að eiga vörubirgðir til kolefnisförgunar upp á 1,3 milljarða króna í síðasta ársreikningi sínum. Ef það kemur svo í ljós að þetta er allt einhvers konar grænþvottur og að stjórnvöld hafi verið plötuð til þess að gefa fyrirtækinu gæðavottun með undirritun sinni, þá er það augljóslega ámælisvert - upp á ansi háa upphæð. Stóra spurningin hlýtur því að vera hvort stjórnvöld hafi verið plötuð?