Umhyggja freka kallsins
Fyrir tæpum 7 árum skrifaði ég fyrsta pistilinn minn í Morgunblaðið sem Pírati. Nú, rúmlega 200 pistlum síðar fannst mér við hæfi að rifja upp fyrsta pistilinn sem ég skrifaði, þar sem ég kynnti mig og áskoranirnar sem við stóðum frammi fyrir sem samfélag. Ég held að það sé óhætt að segja að áskoranirnar (og lausnirnar) eru enn þær sömu - og freki kallinn (sérhagsmunastefnan) hefur orðið fyrirferðameiri.
Úr pistli mínum frá því í október 2017: “Ég fann í Pírötum fólk sem brann fyrir því sama og ég og hafði sömu hugmyndir um hvernig væri hægt að gera stjórnmálin og samfélagið betra. Samfélag þar sem gagnsæi slær á efa, lýðræðinu er treyst fyrir ákvörðunum og réttlæti ríkir. Ekki stjórnmál sem stýrast af fámennum hagsmunahópum heldur stjórnmál sem hlusta og þjóna fólkinu í landinu. Við þurfum að leysa húsnæðisvandann, styrkja heilbrigðis- og menntakerfið, […]. Þetta getum við, ég og allir aðrir Píratar eru tilbúnir í verkið og freki kallinn vill en getur ekki stoppað okkur.”
Það sem var ekki eins augljóst fyrir 7 árum var hversu mikill yfirgangurinn gæti orðið. Þetta var í upphafi falsfréttafaraldursins. Auglýsingarnar um Skatta-Kötu voru búnar að ganga sinn hring og Cambridge Analyctica hneykslið var rétt handan við hornið. Lýðræðið var nýbyrjað að takast á við þessa nýju áskorun og við vorum varla búin að átta okkur á vandanum þegar næsta áskorun hellist yfir okkur - AI í áróðursskyni.
Þau sem búa til vandann eru þessir fámennu hagsmunahópar sem þá gengu undir nafninu freki kallinn. Pútínar heimsins, stórir og smáir. Áhrif peninga og ávöxtunarkröfu þeirra eru víðtæk og þeim er ekkert heilagt. Ekki ósnortin náttúra, ekki loftgæði, ekki líf. Vilja þeirra skal framfylgt með stríði.
Charlie Chaplin orðaði þetta vel í ræðu inni í kvikmyndinni hinn mikli einræðisherra: “Græðgin hefur eitrað sálir okkar, ýtt að okkur hatri, gæsagengið okkur til eymdar og blóðsúthellinga. Við höfum gert allt hraðvirkara en lokað okkur inni. Vélvæðingin hefur gefið okkur gnægt en við erum tóm að innan. Þekking hefur gert okkur tortryggin - og í kænsku okkar erum við köld og óvægin. Við hugsum of mikið og finnum of lítið. Í stað véla þurfum við mennsku. Fremur en kænsku þurfum við gæsku og umhyggju. Án þessara eiginleika er lífið ofbeldisfullt og við glötum öllu.”
Við búum í heimi þar sem það er erfiðara en nokkru sinni fyrr að skilja kjarnann frá hisminu, meira að segja þegar hann er eins augljós og árásir Ísraela á Gaza og árásir Pútín á Úkraínu. Skæruliðadeildir heimsins eru í fullri vinnu við að sannfæra okkur um að raunveruleikinn sé allt öðruvísi, nú vopnvæddar með AI.
Í dag þurfum við meira gagnsæi og meira lýðræði en umfram allt meiri umhyggju.