Efnisyfirlit

Að treysta eða vantreysta

   24. apríl 2024     1 mín lestur

Í síðustu viku lögðu þingflokkar Pírata og Flokks fólksins fram vantrauststillögu á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, svona um það bil korteri eftir að blekið var þornað á nýjum ríkisstjórnarsáttmála. Pólitískum spekúlöntum hefur fundist þessi vantrauststillaga voðalega hallærisleg þar sem það var augljóst að enginn stjórnarþingmaður myndi greiða atkvæði með vantrauststillögunni.

Þetta er skiljanleg túlkun hjá þessum blessuðu spekúlöntum sem hafa alla jafna bara pælt í gömlu pólitíkinni. Þið vitið, klækjabrögðunum og útúrsnúningunum. Tilgangurinn með þessari vantrauststillögu var ekki að reyna að láta einhverja stjórnarþingmenn sem voru stóryrtir út í embættisverk fyrrum matvælaráðherra standa við stóru orðin með því að ýta á grænt á atkvæðagreiðslutakka inni í þingsal, heldur þvert á móti að fá stjórnarþingmenn einmitt til þess að staðfesta að þau treysta forsætisráðherra.

Hér þarf að hafa í huga að vantraustið er lagt fram ofan í undirskriftasöfnun fólks sem vantreystir forsætisráðherranum. Um 42 þúsund manns skrifuðu undir slíkt vantraust með rafrænt auðkenndum aðferðum - sem ég veit ekki hvort fólk áttar sig á hversu erfitt hefur verið að gera. Vantrauststillagan var því lögð fram sem tækifæri fyrir stjórnarþingmenn til að horfa í augun á kjósendum og segja, svo ég túlki þetta frjálslega: “okkur er alveg sama hversu mörgum undirskriftum þið safnið, við treystum okkur sjálfum til góðra verka sama hvað þið segið. Við treystum Bjarna Benediktssyni svo mikið að við veljum hann sem forsætisráðherrann okkar”.

Auðvitað hefði það verið mjög áhugavert ef einhver stjórnarþingmaður hefði setið hjá eða greitt atkvæði með vantrauststillögunni, en við bjuggumst ekki við því. Það var heldur ekki tilgangur tillögunnar. Það þurfti einfaldlega að skrá það í sögubækurnar, í skjöl þingsins sem verður hægt að vísa í um aldur og ævi, hverjum þessir stjórnarþingmenn treysta til verka. Fjármálaráðherra sem er var að segja af sér vegna hagsmunaárekstra þegar hann seldi föður sínum hlut í ríkisbanka í lokuðu útboði og utanríkisráðherra sem réði fyrrum aðstoðarmann sinn til fjölmargra ára í stærsta embætti utanríkisþjónustunnar. Og það eru bara verk undanfarinna mánaða. Listi spillingarmála fyrri ára er mjög langur.

Þess vegna segjum við Píratar að það sé ekki hægt að vinna með Sjálfstæðisflokknum. Spillingarmálin eru fyrirsjáanleg. Spekúlantar uppnefna þessa afstöðu okkar sem “upphlaupspólitík” eða “útilokunarpólitík” en frá okkar sjónarhorni er þetta einfaldlega ákvörðun byggð á gögnum. Við útilokum aldrei málefnalegar umræður, auðvitað ekki. En það er ábyrgðarhlutverk að greiða spillingunni leið í valdastóla. Um það snérist vantrauststillagan.