
Alþingi án ríkisstjórnar
Í lok árs 2017 var engin ríkisstjórn á Íslandi. Hún sprakk hressilega út af uppreist æru málinu og boðað var skyndilega til kosninga. Illa gekk að búa til ríkisstjórn í kjölfar þeirra og voru fjárlög það árið þess vegna að miklu leyti ákveðin af Alþingi en ekki af ríkisstjórninni. Sú fjárlagavinna var töluvert frábrugðin venjulegri fjárlagavinnu í þinginu þar sem hún snýst að miklu leyti um að bíða eftir nákvæmari útfærslum ríkisstjórnarinnar á hinum ýmsu fjárheimildum. Um leið og þær tillögur berast þinginu fer málið úr nefnd og inn í þingsal. Ekki af því að fjárlagavinnunni sé lokið, heldur af því að ríkisstjórnin er búin að ákveða að það þurfi ekki að gera neitt meira.