Pistlar

Nýjustu greinar og hugleiðingar.

Þetta er áróður!

2022-04-30

Bjarni. Heldur þú að þú komist í alvörunni upp með að selja pabba þínum banka eftir allt sem á undan hefur gengið … Vafninginn. Sjóð 9. Borgun. Falson og skýrslufeluleikurinn. Uppreist æru. Lögbannsmálið. Sendiherrakapallinn. Samherjamálið. Ásmundarsal … eftir allt þetta vesen sem þú og flokkurinn sem þú ert í forsvari fyrir hefur látið vaða yfir landsmenn undanfarinn áratug - þar sem hvert eitt og einasta mál hefði fengið stjórnmálamenn með snefil af virðingu fyrir siðmenntuðu samfélagi til að segja af sér — heldur þú að þú komist í alvörunni upp með þetta?

Þjónn, það er ryk í augunum mínum

2022-04-09

Ég held að flest séum við sammála um að spilling sé slæm, eitthvað sem við eigum að koma í veg fyrir. Við hljótum þá líka að geta sammælst um nauðsyn þess að fólk sé látið sæta ábyrgð þegar upp kemst um spillingu á þeirra vegum. En jafnvel þegar vísbendingarnar spretta eins og gorkúlur allt í kringum okkur, virðist ekkert gerast. Hvers vegna?

Björninn unninn

2022-03-31

Á dögunum birtist grein eftir Óla Björn Kárason í Morgunblaðinu um svokallaðar „málfundaæfingar í þingsal,” þar sem hann kvartaði undan því að þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna fullnýti þingfundartíma til að ræða málin og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í mínum bókum kallast það einfaldlega að vinna vinnuna sína, en gott og vel. Greinin er að mörgu leyti áhugaverð, sérstaklega þegar hún er lesin og skoðuð í víðara samhengi.

Prestur prófar pólitík ... og rökfræði.

2022-03-23

Í nýlegum skoðanapistli fjallar Gunnar Jóhannesson, prestur Árborgarprestakalls, um trú mína og fullyrðir meðal annars að það þurfi trú til þess að segja að guð sé ekki til. Það er áhugavert hvernig Gunnar orðar þessa niðurstöðu sína, með upphrópunarmerki meira að segja. Tilefni þessa skoðanapistils Gunnars er tveggja mínútna ræða mín á þingi upp á rétt tæplega 350 orð. Þeirri ræðu svarar Gunnar í rúmlega 2.200 orðum en viðurkennir á sama tíma að hann hafi “ekki heyrt ræðu Björns Levís”. Grein Gunnars er mjög áhugaverð í þessu samhengi. Skoðum hana aðeins nánar.

Það eina sem skiptir máli.

2022-03-22

“Stækkum kökuna!”, er algengur frasi hjá stjórnmálamönnum. Í kjölfarið fáum við yfirleitt alls konar útskýringar um það hvernig stærri kaka sé forsenda fyrir þá sem þurfa á ríkisútgjöldum að halda og nefna öryrkja, heilbrigðiskerfið, skóla og annað slíkt - svo vitnað sé til orða orku- auðlinda og loftslagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum fyrr í mánuðinum. Þar fullyrti ráðherrann að Píratar væru á móti hagvexti.

Þak yfir höfuðið.

2022-03-13

Byggjum 20 þúsund íbúðir á næstu fimm árum, samkvæmt formanni Framsóknarflokksins í grein Morgunblaðsins þann 10. mars s.l. Sem ráðherra innviðamála hefði ég búist við að sjá einhverjar tilkynningar um þessa stefnu ríkisstjórnarinnar á vefsíðu stjórnarráðsins en þar er ekkert að finna. Þetta eru greinilega kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar sem ríkissjóður á að fjármagna.

Að selja banka í stríði.

2022-03-03

Það er mjög erfitt að einbeita sér að öðrum verkefnum þegar jafn stórir atburðir og stríð í Úkraínu skellur á. Eins aðkallandi og viðbrögð við stríðsástandi eru gerist því miður margt annað á sama tíma sem að sinna. Það rífur athyglina frá því sem er mikilvægast og viðbrögðin verða einfaldlega ekki eins góð fyrir vikið. Sem betur fer erum við samt mörg og getum skipt verkum. Ég fæ til dæmis það mikilvæga en óáhugaverða starf að fylgjast með áframhaldandi sölu Íslandsbanka. Ég myndi glaður vilja sinna viðbrögðum við stríðinu í Úkraínu, vinna í aðgerðum á húsnæðismarkaði, efla heilbrigðiskerfið, uppfæra menntakerfið, laga framfærslutryggingarkerfið eða bara geta sinnt fjölskyldu og vinum.

Um hvað snýst þetta?

2022-02-22

Þegar ég var að byrja í stjórnmálum kom að mér einn reyndur úr flokkspólitíkinni og útskýrði fyrir mér hvað það þýddi að "ramma inn umræðuna". Að hann gæti "unnið" allar rökræður ef hann fengi að stjórna því hvert sjónarhornið á umræðunni væri. Það er þess vegna sem við sjáum oft hina ýmsu varðhunda valdsins sífellt útskýra fyrir öllum öðrum um hvað hitt og þetta mál snýst í raun og veru um, með því að gera öðrum upp skoðanir. Í versta falli snýst þá umræðan um þann strámann frekar en málið sjálft og afvegaleiðingin heppnast. Sem dæmi. Það er satt að það hvorki þingið né framkvæmdavaldið eigi að hafa afskipti af störfum lögreglu í miðjum málarekstri. Í nýlegri færslu fjármálaráðherra er einmitt ásökun um að eitthvað slíkt sé í gangi. Stundum er erfitt að gera greinarmun á því hvað er strámaður og hvað ekki vegna þess að efnislega eru rökin rétt - en það er bara enginn að leggja það til að það eigi að trufla störf lögreglu. Það eru allir sammála um að lögreglan eigi að fá frið til þess að sinna starfi sínu. Þau einu sem halda öðru fram eru fjármálaráðherra og hans lið. Það sem er hins vegar gagnrýnt er að hægt sé að nota lögin um kynferðislega friðhelgi til þess að standa í þeim málarekstri sem lögreglan er nú í. Það þýðir ekki að lögreglan eigi að hætta einhverju, enda starfar hún bara eftir lögum. Það þýðir að það þarf að athuga af hverju lögin virka svona - því augljóslega er verið að beita þeim þannig og þingmenn (löggjafinn) þurfa að svara spurningunni hvort svo eigi að vera áfram. Ég bjóst að minnsta kosti aldrei við að lögin ættu að virka svona þegar ég samþykkti þau í fyrra. Ég geri auðvitað ráð fyrir að lögreglan starfi samkvæmt lögum en ég er á þeirri skoðun, sem þingmaður, að lögin eiga ekki að virka svona og tel því að það þurfi að laga lögin - sem fyrst. Áður en þeim er beitt svona gegn fleirum. Á meðan eru þetta auðvitað gildandi lög og það á auðvitað að fara bara eftir þeim lagabókstaf sem er í gildi. Á meðan er auðvitað mjög eðlilegt að það fari fram umræða um túlkun laga, hvernig framkvæmdavald beitir gildandi lögum, hvernig lögregla starfar samkvæmt gildandi lögum og hvernig dómstólar dæma samkvæmt þeim - því það koma sífellt upp ný mál sem passa kannski ekki fullkomlega við gildandi lagaramma - án þess að það þurfi að trufla störf lögreglu eða dómstóla. Hinn möguleikinn, að lögin virki ekki svona er allt annað mál og miklu alvarlegra. Augljóslega. Hvort það sé málið eða ekki kemur bara í ljós eftir málareksturinn í gegnum dómskerfið. Ég tel þetta vera mjög "skapandi" beitingu á lögunum en lögreglan starfar auðvitað bara eins og hún túlkar lögin. Ég geri hins vegar ekkert annað en að styðja að farið sé að lögum.

Að trúa þolendum.

2022-02-13

Um daginn deildi ég grein með skilaboðunum “ég trúi þolendum”. Áhugaverðar umræður spruttu upp í kjölfarið á því sem gefur mér tilefni til þess að spyrja spurningarinnar hvað það þýðir að trúa þolendum.