Efnisyfirlit

20 dagar í Mariupol

   23. febrúar 2024     2 mín lestur

Við lokum oft á stórar og miklar tilfinningar. Við reynum að gleyma þeim þó svo það sé oft ómögulegt. Við getum ekki forðast að takast á við hatrið, sorgina, ástina, söknuðinn, gleðina, vonbrigðin, reiðina. Ef við tökumst ekki á við okkar innri áskoranir þá gerjast þær bara og magnast á einn eða annan hátt.

Í síðustu viku fór ég á heimildarmyndina 20 dagar í Mariupol. Þar upplifði ég tilfinningar haturs, reiði, sorgar, gleði og síðast en ekki síst, hugrekkis. Myndin sýnir upphaf stríðsins í Úkraínu, þegar Rússar réðust inn í Mariupol, frá sjónarhorni fjölmiðlafólksins Mstyslav Chernov og Evgeniy Maloletka. Nánd myndavélarinnar við þær hörmungar, sem hin fólskulega árás olli, staðsetur mann í hringiðu atburða sem engin á að þurfa að upplifa.

Fjarlægð okkar Íslendinga frá stríðinu er ákveðinn vernd fyrir þeim hörmungum sem myndin gerir okkur kleift að nálgast. Ég get ekki ímyndað mér hversu átakanlegt það er að standa í sporum þess fólks sem fyrir augu okkar ber í myndinni. Við sem sátum í öruggum bíósal á Íslandi umkringd samferðafólki urðum öll sem eitt fyrir miklum áhrifum og snerti bíómyndin okkur inn að beini.

Tilfinningarnar sem ég taldi upp eru ekki tæmandi listi, og ég get ekki eignað mér þessar tilfinningar heldur. Þó ég hafi upplifað hugrekki, þá er það ekki eigið hugrekki heldur hugrekki þeirra sem stóðu í lappirnar og fordæmdu árásir Pútíns á meðan sprengjum rigndi yfir þau. Hugrekkið sem þurfti til þess að sinna slökkvistörfum, löggæslustörfum, hjúkrun og fjölmiðlun í þessum aðstæðum er eitthvað sem einungis mótlætið dregur fram í fólki.

Mér er minnisstæð ein setning úr myndinni. Stríð og þjáningar gera gott fólk betra og vont fólk verra. Þessi setning segir svo margt, ekki bara um stríðið í Úkraínu eða árásina á Mariupol heldur líka um hvernig við bregðumst við aðstæðum sem ógna okkur. Örvæntingarfullt fólk reynir að bjarga sér og sínum eins og það best getur og slær frá sér ef það telur sig þurfa þess. Jafnvel í áttina að röngum aðilum.

Í þessu tilfelli, þá er það mjög skýrt hver er árásaraðilinn. Það er skýrt að Pútín ber ábyrgðina á hverju einu og einasta dauðsfalli í Úkraínu. Að sjá örfá þeirra í myndinni um árásina á Mariupol var átakanlegt og leiðir hugann óhjákvæmilega að því hvað fær fólk til þess að búa til svona hörmungar. Hvaða lygar fólk leggur á borðið til þess að réttlæta svona skepnuskap. Vandamálið er bara að svipaðar lygar er að finna alls staðar. Ég sé þær nær daglega í störfum mínum. Sömu blekkingarnar eru notaðar í litlum málum og stórum.

Stríðið við lygarnar er nefnilega alls staðar, þó að afleiðingar þeirra séu sjaldnast stríð þá þurfum við samt að skilja að markmiðið með lygunum er það sama. Völd.