Efnisyfirlit

Ný utanþingsstjórn

   14. mars 2024     2 mín lestur

Það fór ekki þannig að ríkisstjórnin sprakk eins og margir höfðu búist við. Hvorki út af hvalveiðimálinu, útlendingamálum, bankasölu, vopnvæðingu lögreglu né öðrum málum sem hafa reynst ríkisstjórninni erfið. Í staðinn fengum við bara óformlega starfsstjórn fram að næstu kosningum.

Það er nýbúið að undirrita kjarasamninga við stóran hluta almenna vinnumarkaðarins sem sendir á sama tíma 80 milljarða króna reikning á ríkissjóð á næstu fjórum árum. Og þá á eftir að klára kjarasamninga við starfsfólk hjá hinu opinbera. Þrátt fyrir að ýmsir ráðherrar hafi í gegnum tíðina sagt að ríkið sé ekki aðili að kjarasamningum á almenna vinnumarkaðnum. Annð hefur þó komið í ljós, ríkið virðist vera þriðji aðilinn í þessum samningaviðræðum.

Þetta er skrítið því fyrir einungis rétt rúmum 2 mánuðum samþykkti ríkisstjórnin fjárlög fyrir árið í ár. Þar voru rúmir 17 milljarðar settir í varasjóð til að eiga fyrir komandi fyrir launahækkunum, einfaldlega af því að ríkisstjórnin hafði ekki hugmynd um hvaða kröfur vinnumarkaðurinn ætlaði að gera í kjarasamningum. En af hverju þarf ríkið að vita það þegar stjórnvöld eiga ekkiað vera aðilar að samningum á almenna markaðnum til að byrja með? Það sem er svo öfugsnúið í þessu öllu er að með því að ríkisstjórnin taki ekki ákvarðanir um fjárheimildir vegna samfélagslegra innviða, þá er ríkisstjórnin í rauninni að leggja þá ákvörðun í hendur samningsaðila á almenna vinnumarkaðnum. Og þá verðum við að spyrja okkur, hverjir ráða þá fjárlögum ríkisins í raun og veru?

Stjórnmálamenn og flokkar bjóða sig nefnilega fram með ákveðna stefnu og markmið. Ef stefnan er að aðilar vinnumarkaðarins ráði bara, til hvers þarf þá þingkosningar? Þegar ríkisstjórnin er farin að útvista ákvörðunum til einhverra annarra, hver er þá tilgangurinn með núverandi ríkisstjórn yfirleitt? Það væri verið að taka nákvæmlega sömu ákvarðanirnar án þeirra.

En þá komum við að spurningunni um hvernig eigi eiginlega að borga fyrir þetta. Það má kannski segja að það sé þegar til fjármagn fyrir þessu, það var búið að leggja til hliðar í almenna varasjóðinn 17 milljarða. Eitthvað er líklega tvítalin þannig að þessir við endum kannski með aðeins lægri reikning en umtalaða 80 milljarða. Gefum okkur þá að heildarkostnaðurinn séu þessir 17 milljarðar sem búið er að taka til hliðar. Þá er ekkert eftir fyrir launahækkanir opinberra starfsmanna og fyrst nýja utanþingsstjórnin okkar, þ.e.a.s. aðilar vinnumarkaðarins, er ekki með tillögur um það hvernig eigi að fjármagna þessa nýju kjarasamninga verðum við að horfa til ríkisstjórnarinnar varðandi það, eða líklega einhverra annarra af því að þessi ríkisstjórn er ekki líkleg til þess að ráða fram úr því.