Efnisyfirlit

Húsnæðisvandinn er efnahagslegt fangelsi

   7. febrúar 2024     2 mín lestur

Húsnæðisvandann má finna víða í samfélaginu okkar. Núverandi húsnæðisvanda, samkvæmt greiningum Íbúðalánasjóðs, má rekja til ársins 2016 þar sem óuppfyllt íbúðaþörf jókst frá því að vera nær engin upp í um 2.000 íbúðir á einu ári. Vandinn jókst og þörfin var orðin á bilinu 4.000 - 8.000 íbúðir árið 2020. Heimsfaraldurinn dró aðeins úr skortinum og árið 2019 var það mat Íbúðalánasjóðs að þörfin yrði á bilinu 2.000 - rúmlega 7.000 íbúðir árið 2022. Raunþörf var ekki ljós á þessum tímapunkti.

Hún er þó engu ljósari í dag, aðallega af því að það virðist vera ofmat á fjölda fólks sem býr á Íslandi sem gerir það að verkum að kannski er íbúðaþörf minni en áætlað hefur verið. Það er áhugavert að íbúðaþörf hefur ekki minnkað af því að tekist hafi að byggja fleiri íbúðir en áður heldur af því að það er verið að leiðrétta oftalningu á fólki. Þrátt fyrir þetta er þörf á um það bil 1.500 - 6.500 íbúðum sem er allt frá því að vera heilt ár af byggingarframkvæmdum yfir í þrjú ár af framkvæmdum. Í efnahagslegu samhengi er þetta skuld sem samfélagið er að borga fyrir með hærra íbúðaverði, hærri vöxtum og meiri verðbólgu.

Og til þess að segja það skýrt og greinilega. Lóðaframboð er ekki vandamálið. Í fyrra voru lóðir fyrir rúmlega 9.500 íbúðir í boði, þar af rúmlega 4 þúsund byggingarhæfar lóðir. Meira en nóg til þess að útrýma íbúðaskortinum.

Birtingarmyndir húsnæðisvandans eru víða og í þætti Kveiks í síðustu viku um fangelsismál sagði einn fanginn að hann hefði vísvitandi framið glæp til þess að komast í húsaskjól, jafnvel þó skjólið væri í ónýtu Litla-Hrauni. Þó það sé ekki eingöngu skortur á húsnæði sem leiðir til heimilisleysis þá hjálpar það ekki til í tilfelli heimilislausra.

Samkvæmt nýlegri skýrslu voru tæplega 400 sagðir heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu. Heimilisleysi er ekki óyfirstíganlegt vandamál, spurningin er ekki hvort það eigi að uppræta heimilisleysi á Íslandi heldur hvernig. Uppbygging félagslegs húsnæðis er vissulega lykilatriði en það þarf meira til þar sem skilyrðin fyrir því að geta fengið félagslegt húsnæði útilokar þó nokkuð af fólki. Píratar hafa talað fyrir því að taka upp aðferðafræði sem hefur gengið vel í öðrum löndum, til dæmis Finnlandi, sem er kenndi við “húsnæði fyrst” (e. housing first).

Það er ljóst að fjölda fólks á Íslandi vantar þak yfir höfuðið. Til þess að bregðast við þeim vanda þarf í fyrsta lagi að vera til nægilega margar íbúðir en það eitt og sér dugar ekki til því í núverandi hagkerfi þá verða alltaf einhverjir útundan. Til að bregðast við því höfum við félagslegt öryggisnet en það er þó augljóst að það er ekki að virka í núverandi mynd. Verðum við ekki krefja stjórnvöld um að laga það?