Efnisyfirlit

Vélmenni í kosningabaráttu?

   29. janúar 2024     2 mín lestur

Það er 28. september 2023. Það eru tveir dagar í þingkosningar í Slóvakíu og fjölmiðlum og stjórnmálamönnum eiga að hafa sig hæga til þess að gefa kjósendum frið til þess að ákveða sig áður en þeir ganga í kjörklefann. Einmitt þá er hljóðupptaka birt á Facebook. Á hljóðupptökunni má heyra rödd formanns framfaraflokks Slóvakíu ræða við fjölmiðlakonu dagblaðsins Denník N og útskýra fyrir henni hvernig að að svindla í kosningunum með því að kaupa atkvæði frá Rómafólki.

Tveir stærstu flokkarnir í kosningunum voru framfaraflokkurinn, sem styður NATO. Og SMER flokkurinn, sem mælir með því að draga úr hernaðarlegum stuðningi við Úkraínu. Þegar talið hafði verið upp úr kjörkössunum stóð SMER uppi sem sigurvegari, með flesta þingmenn og bætti við sig 4 þingmönnum. Óljóst er hversu mikil áhrif upptakan sem var birt einmitt þegar þagnarbindindi fjölmiðla og stjórnmálamanna fyrir kosningarnar tók gildi.

Birtingin var ekki uppljóstrun fjölmiðils eða ónefnds heimildarmanns. Hljóðupptakan var skálduð. Búin til með gervigreindartækni.

Í Bandaríkjunum heyrist forsetinn hvetja fólk til þess að taka ekki þátt í forvali Demókrata í New Hampshire. Sú hljóðupptaka var einnig skálduð.

Í Bretlandi birtist hljóðupptaka af formanni verkamannaflokksins tala illa um starfsfólk flokksins. Það var einnig skálduð upptaka.

Gervigreindartæknin býður upp á stórkostlega möguleika. Tæknin getur sjálfkrafa þýtt á milli mismunandi tungumála, búið til hágæða lögfræðiálit, gefið ráð um mataræði og margt fleira. Tæknin gæti þýtt endurreisn Babelturnsins með tilheyrandi áhrifum á möguleika fólks til þess að eiga samskipti. En á sama tíma er einnig hægt að nota tæknina til þess að falsa samskipti með tilheyrandi skaða fyrir lýðræðið.

Voru áhrif fölsuðu hljóðupptökunnar í Slóvakíu næg til þess að breyta niðurstöðum kosninganna á þann hátt að það mun draga úr stuðningi við Úkraínu? Hver ber ábyrgð á því að búa til þessa hljóðupptöku? Eins og er þá eru ekki til nein svör við því en möguleikarnir eru allt frá því að vera óháður þriðji aðili innan Slóvakíu til þess að vera gert með aðstoð Rússa, sem gæti þá þýtt árás á NATO ríki samkvæmt 5. grein varnarsáttmálans. Það er því ómögulegt að vita hvað gerist í framhaldinu, nema að það verða líklega fleiri tilfelli af fölsuðum hljóðupptökum á þessu mikla kosningaári þar sem nær helmingur jarðarbúa mun taka þátt í kosningum á árinu.

Þingflokkur Pírata hefur lagt fram einfalt frumvarp um notkun gervigreindar til þess að endurgera raddir eða ímynd fólks án samþykkis þeirra. Það stöðvar að sjálfsögðu engann í að nota tæknina, en það verður að minnsta kosti skýrt að slíkur verknaður sé ólöglegur og refsiverður.