Efnisyfirlit

Öll stóru verkefnin enn óleyst

   19. janúar 2024     2 mín lestur

Staðan er sú að öll stóru verkefnin eru enn óleyst. Þau eru reyndar svo mörg að ég veit ekki hvort ég get talið þau öll upp í þessum pistli, bæði vegna takmarkaðs orðafjölda og vegna þess að það eru sífellt að bætast við ný verkefni. Grindavík er hið augljósa forgangsverkefni þessa dagana, að koma fólki aftur í öruggt húsnæði. Það er flókið verkefni vegna áratugalangrar húsnæðiskrísu á Íslandi eða uppsafnaðari húsnæðisþörf eins og það er kallað á fræðamálinu.

Húsnæðisvandann má rekja til áranna 2014 til 2017 þegar ferðamönnum fjölgaði úr einni milljón á ári upp í 2,2 milljónir auk þess tilheyrandi fjölda fólks sem kom til landsins til þess að vinna við ferðaþjónustuna. Frá upphafi árs 2014 hefur Íslendingum fjölgað um 21 þúsund manns og erlendum ríkisborgurum fjölgað um 49 þúsund. Af þessum 49 þúsund má telja um 6 þúsund sem hafa fengið vernd og þar af hafa komið rúmlega 3 þúsund frá Úkraínu.

Í skýrslu velferðarráðuneytisins frá 2014 um framtíðarskipan húsnæðismála kemur skýrt fram að það er skortur á leiguhúsnæði um allt land. Þessi skortur hefur aðeins aukist síðan þá, að miklu leyti vegna þess að þó nokkuð vantaði upp á að spár um fjölgun íbúa. Í mannfjöldaspá Hagstofunnar í lok árs 2014 var gert ráð fyrir að fjöldi íbúa á Íslandi árið 2023 yrði um 350 - 360 þúsund (erfitt er að lesa úr línuriti á vef Hagstofunnar) en hér búa nú um 40 - 50 þúsund fleiri en gert var ráð fyrir. Það hefur auðvitað mjög mikil áhrif á byggingarframkvæmdir þegar spáin er skökk upp á 40 - 50 þúsund manns. Á sama tíma eykst álagið á heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Aftur, umfram áætlanir.

Þetta er stóra vandamál stjórnmálanna. Að geta ekki brugðist nægilega hratt við breyttum forsendum. Það hefur ítrekað sýnt sig á undanförnum áratug að áætlanir hafa ekki staðist og í staðinn fyrir að spýta í lófana og hefjast handa þá höfum við þurft að glíma við pólitík hins lægsta samnefnara. Pólitík sem getur ekki tekið skrefin sem þarf að stíga.

Vissulega eru skiptar skoðanir um það í hvaða átt þau skref eiga að vera. Það er þetta klassíska hægri eða vinstri rifrildi. Einkavæða, samvinnuvæða eða ríkisvæða. Þetta rifrildi er þreytt og úrelt því raunin er sú að það þarf að gera allt. Það þarf einkavæðingu, samvinnuvæðingu og ríkisvæðingu. Það er pólitískt þvaður að einkaaðilar og ríki geti ekki starfað á sama vettvangi. Þau sem halda því fram vilja annað hvort ríkisrekstur eða einkarekstur - sem leiðir yfirleitt til einokunar. Þegar allt kemur til alls þá er það einokunin sem við verðum að forðast.

Þetta sést best á því að helstu talsmenn markaðarins tala þessa dagana fyrir því að ríkið kaupi upp íbúðarhúsnæði Grindvíkinga. Algjörlega nauðsynlegt, og á sama tíma mjög upplýsandi.