Efnisyfirlit

Stóriðjan tekur heimilin í gíslingu

   9. janúar 2024     2 mín lestur

Forgangsröðun orku ætti ekki að vera flókin. Fyrst þarf að tryggja orku fyrir heimilin og grunninnviði samfélagsins, síðan fyrir verðmætasköpunina. Heimilin og verðmætasköpunin eru þó auðvitað samofin. Það væri engin verðmætasköpun án heimila og engin heimili án verðmætasköpunar.

Umræðan þessa dagana um orkuskort er á villigötum ef kjarni málsins er skoðaður. Á Íslandi framleiðum við gríðarlegt magn af orku. Miklu meiri orku en heimilin og grunninnviðir landsins þurfa. Umfram orkan er síðan notuð í verðmætasköpun og því meiri orku sem við höfum aflögu til þess að auka verðmætasköpun, því betra. En, og það er risastórt en, það þýðir ekki að við eigum að ganga í að búa til eins mikla orku og við mögulega getum, því orkuframleiðslan gengur á náttúruna. Flestir hljóta að vera sammála um það og því ætti umræðan að snúast í staðinn um hvernig við eigum að ráðstafa þeirri orku sem við framleiðum.

Þar sem það er til miklu meiri orka en heimili og grunninnviðir þurfa á að halda þá snýst umræðan um orkuskort í raun og veru um orkuþörf verðmætasköpunarinnar. Með öðrum orðum, aðallega um kröfu stóriðjunnar um að geta keypt ódýra orku. Því við skulum hafa það alveg á hreinu að ef fleiri og fleiri sækjast í að kaupa orku þá þýðir það einfaldlega að stóriðjan mun þurfa að kaupa dýrari og dýrari orku. Stóriðjan sem þegar notar 80% af allri raforkunni sem við framleiðum.

Við þurfum að aðskilja þetta tvennt, heimilin og grunninnviði annars vegar og alla aðra hins vegar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja heimilum orku á sanngjörnu verði. Það var samþykkt með þriðja orkupakkanum. Það er hins vegar ekki skylda stjórnvalda að tryggja öðrum notendum orku á ódýru verði. Þetta er lykilatriðið. Hræðsluáróður stóriðjunnar um orkuskort á ekki að að snerta heimilin. Orkuskortur fyrir iðnaðinn á ekki að þýða að heimili landsins verði fyrir orkuskorti. Iðnaðurinn er einfaldlega að kvarta undan því að þurfa að greiða hærra verð fyrir orkuna. En er það ekki bara jákvætt? Það þýðir að við fáum meira fyrir orkuna sem við erum að framleiða (meiri verðmætasköpun) án þess að við þurfum að virkja meira. Gleymum því ekki að ósnortin náttúra er líka verðmæt.

Auðvitað ættum við að selja orkuna okkar til verðmætasköpunar eins dýru verði og við getum og helst ekki til fyrirtækja sem geta hagnýtt sér bókhaldsæfingar til þess að flytja hagnaðinn til útlanda með svokallaðri þunnri eiginfjármögnun þar sem vaxtagjöld eru dregin frá tekjum fyrir skatta.

Ekki leyfa stóriðjunni taka orkuna okkar í gíslingu. Leyfum ekki hræðsluáróðri þeirra að hafa áhrif á okkur. Það er stjórnvalda að tryggja heimilum okkar örugga orku á sanngjörnu verði og það er meira en nóg til.