Efnisyfirlit

Efnahagsmistökin

   30. desember 2023     2 mín lestur

Verðbólgan undanfarin tvö ár hefur verið ansi þrálát og drifin áfram af nokkrum efnahagsþáttum. Þar má helst telja til hækkun á húsnæðisverði og innfluttum vörum, kjarabaráttu og ríkisfjármálin. Afleiðingarnar af verðbólgunni hafa verið miklar fyrir heimili og fyrirtæki þar sem bæði stýrivextir og verðbólgan sjálf hafa áhrif á allt með verðmiða.

Allir benda hvern á annan þegar verið er að reyna að finna þann sem ber ábyrgð á þessu ástandi og sitt sýnist auðvitað hverjum. Samtök atvinnulífsins benda á háar launakröfur og innflutta verðbólgu. Sama má segja um ríkisstjórnina. Verkalýðshreyfingin bendir á auknar arðgreiðslur fyrirtækja sem gróðaverðbólgu og hagfræðingar minna okkur aftur og aftur á húsnæðisvandann. Staðan er auðvitað sú að allir hafa eitthvað til síns máls, en umræðan snýst kannski um hver hefur mest rétt fyrir sér.

Sem þingmaður í stjórnarandstöðu kemur það eflaust ekki á óvart að ég kenni aðallega ríkisstjórninni um ástandið en hér fyrir neðan útskýri ég af hverju, því ég hef engan áhuga á innantómri umræðu. Ef fólk er ekki sammála niðurstöðu minni um ábyrgð ríkisstjórnarinnar á efnahagsklúðri undanfarinna ára þá er að minnsta kosti hægt að ræða hver af þeim rökum sem ég nota ganga ekki upp.

Staðreynd 1: Hækkun á húsnæðisverði hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgu á undanförnum árum. Frá upphafi árs 2020 hefur húsnæðisvísitala hækkað um 36% á meðan almenn verðlagsvísitala hefur hækkað um rétt tæp 27%. Það má rekja ábyrgðina á þessari hækkun til ríkisstjórnar sem setti nær allan sinn efnahagslega stuðning í húsnæðismálum í eftirspurnarhlið markaðarins á sama tíma og það var skortur á húsnæði. Fleiri að kaupa færri íbúðir = verðbólga.

Staðreynd 2: Halli ríkissjóðs. Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin eytt umfram efni og þar með blásið út hagkerfið. Það er að einhverju leyti skiljanlegt ef horft er til viðbragða vegna heimsfaraldurs en ríkisstjórnin hefði þurft að ráðast í fleiri mótvægisaðgerðir á sama tíma.

Staðreynd 3: Hækkun á innfluttum vörum, bæði vegna Covid og vegna stríðsins í Úkraínu. Það er ekki hægt að kenna ríkisstjórninni um þann þátt verðbólgunnar.

Staðreynd 4: Verðbólga mun líklega hjaðna smá saman á næstu 5-6 mánuðum, aðallega vegna aðgerða Seðlabankans og lægri verðbólgu í helstu viðskiptalöndum. Afleiðingarnar af þeim hörðu aðgerðum eiga enn eftir að koma fram að fullu því stýrivextir eru enn háir og fimmta ársfjórðungurinn í röð hafa ráðstöfunartekjur fólks rýrnað.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á fleiri þáttum verðbólgunnar en færri en neitar enn ábyrgð heilum tveimur árum eftir að hún fór á flug. Það væri góð tilbreyting ef ríkisstjórnin myndi bara gangast við hagstjórnarmistökum sínum.