Efnisyfirlit

Þingið í jólafrí

   18. desember 2023     2 mín lestur

Nú er þingið komið í jólafrí til 22. janúar. Ansi langt finnst held ég flestum. Fríið er að vísu aðeins styttra þar sem fundir nefnda hefjast viku fyrr eða 15. janúar. Það er samt næstum mánuður í frí.

Af hverju fer þingið í svona langt jólafrí (svo ekki sé minnst á sumarfríið)? Er ekki nóg að gera? Ég hef oft heyrt þessar spurningar og ég skil þær mjög vel. Ástæðurnar fyrir löngu fríi eru nokkrar og misgóðar. Eða kannski misslæmar.

Aðalástæðan er einfaldlega að þannig hefur þetta alltaf verið. Það er hefð fyrir þessu. Þingið var áður fyrr ekki fullt starf og sóttu menn þing þegar ekki var mikið að gera í búskapnum. En á undanförnum áratugum hefur starf þingsins orðið umfangsmeira. Áskoranirnar og kröfurnar eru meiri og þá er hægt að spyrja hvort það sé ekki bara hægt að gera þingið að venjulegum vinnustað með hefðbundum vinnutíma yfir allt árið?

Næsta ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi er að þingmenn koma til starfa á þingi alls staðar af landinu án þess að það sé í raun gerð krafa um að kjörnir þingmenn þurfi að flytja í höfuðborgina eða nágreni hennar til þess að sinna þingstörfum. Það er semsagt enn gert ráð fyrir því að fólk geti búið alls staðar á landinu og samt sinnt þingstörfum. Þess vegna vinnur þingið í rauninni enn í törnum með löngum fríum inn á milli.

Það er svo ekki alveg rétt að segja að það sé frí þegar þing er ekki að störfum, það er að segja á meðan það eru ekki þingfundir eða nefndarfundir. Það eru mörg önnur verkefni sem hægt er að sinna á meðan. Undirbúningur næstu mála fer oft fram í þessum hléum sem dæmi.

Síðasta ástæðan er að þetta fyrirkomulag hentar íhaldinu mjög vel. Þau sem vilja sem minnstu breyta myndu búa til nákvæmlega svona kerfi til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að breyta til. Það fylgir hugmyndafræðinni um að allt gott gerist hægt og þó það sé kannski almennt þannig þá þarf stundum að taka til hendinni gera almennilega hreint. Það þarf að vera hægt að gera hvort tveggja, taka á málunum í ró og næði og taka vel ígrundaðar ákvarðanir, og hrista svo upp í kerfinu af og til og sjá hvað hrynur úr því. Þegar bíllinn er að hrynja í sundur er ekki nóg að tjasla bara upp á hann fyrir skoðun, stundum þarf nefnilega bara að draga hann á haugana og kaupa nýjan.

Ég held að þingið geti ekki leyst stór samfélagsleg vandamál lengur. Kvótakerfið, einkavæðing (eða ekki) heilbrigðiskerfisins, stjórnarskráin, menntakerfið, … ég held að við þurfum að fylgja fordæmi Íra, sem fylgdu fordæmi okkar, um borgaraþing, til þess að skera á hnútana í þessum stóru málum. Til þess að taka þessi mál úr pólitísku skotgröfunum. Svo stjórnmálaflokkarnir lofi ekki bara og lofi og klári svo aldrei stóru málin heldur fari bara í löng frí.