Efnisyfirlit

Til hvers að ræna banka?

   29. nóvember 2023     1 mín lestur

Til hvers að ræna banka þegar hægt er að búa til VSK númer?

Ársskýrslur skattrannsóknarstjóra frá árinu 2013 eru aðgengilegar á vef stofnunarinnar og í þeim öllum er bent á skattsvik með orðunum: “gefnir eru út tilhæfulausir reikningar sem ganga kaupum og sölum í þeim tilgangi að ná út fjármunum úr ríkissjóði í formi innskatts og mál þar sem tekjum er skotið undan í gegnum flókin net aflandsfélaga”.

Hversu miklum peningum er rænt úr ríkissjóði með þessari aðferð? Samkvæmt heimildum eru það rúmlega 10 milljarðar á ári. Ríkisstjórnin veit af þessu en aðgerðaleysið er algjört. Eins og í svo mörgum öðrum málaflokkum.

Í febrúar á þessu ári kom út sérstök skýrsla um skattsvik vegna tilhæfulausra reikninga. Þar leggur starfshópur fram um 20 tillögur að úrbótum sem ég bjóst fastlega við að kæmu til afgreiðslu þingsins á þessu haustþingi - að minnsta kosti þær tillögur sem koma í veg fyrir 10 milljarða tap á almannafé á ári.

Þingflokkur Pírata leggur því til breytingar á lögum til þess að skattrannsóknarstjóri geti stöðvað þessi skattsvik um leið og þau komast upp í afgreiðslu fjárlaga nú fyrir áramót. Breytingarnar eru einfaldar en þær snúast um að hægt sé að loka VSK númeri sem uppfylla ekki kröfur skattsins um fullnægjandi upplýsingaraðrar eðlilegar og almennar kröfur um gagnaskil.

Það þarf ekki einu sinni mikla vinnu til þess að sníða til breytingarnar, tillögurnar liggja nú þegar fyrir í skýrslu starfshóps Ríkisskattsstjóra eins og fyrr segir. Því er afsökun stjórnvalda á aðgerðarleysi nákvæmlega engin.

Miðað við að ábendingar hafa borist um þetta svindl frá skattrannsóknarstjóra í að minnsta kosti heilan áratug má líka spyrja spurninga um ábyrgð stjórnvalda af vanrækslu - hefur það verið skoðun stjórnvalda að þetta sé bara í fína lagi, og þess vegna hafa ekki komið neinar tillögur um að laga þetta frá stjórnvöldum? Ég ætla að leyfa mér að efast um það, en það þýðir þá að þetta hefur ekki verið forgangsmál hjá undanförnum ríkisstjórnum og núverandi ríkisstjórn skipaði ekki starfshóp fyrr en eftir rúmlega heilt kjörtímabil. Hversu lengi á svo að draga lappirnar í viðbót?

Þingflokki Pírata finnst óþarfi að bíða lengur. Það er mjög einfalt að gefa skattrannsóknarstjóra heimildir til þess að stöðva starfsemi umsvifalaust sem ber öll einkenni þess að gefa út tilhæfulausa reikninga. Ágóðinn yrði um 10 milljarðar á hverju ári sem fara í dag til fólks sem svindlar undan skatti og einnig betri gæði í skattamálum lögaðila