Efnisyfirlit

Bær í eyði?

   20. nóvember 2023     2 mín lestur

Sá grunur læðist óhjákvæmilega að manni þessa dagana að heilt bæjarfélag sé komið í eyði. Jarðskjálftarnir, eldgosin og sögulegar heimildir um gostímabilin í gosstöðvunum við Grindavík læða að manni þeim grun að ef núverandi umbrot leggja ekki bæinn í eyði þá geti næsta eða þarnæsta óróatímabil endað þannig. Og jafnvel þó þetta óróatímabil verði skammvinnt, ekki hundruðir ára eins og í eldri umbrotum, þá tekur tíma til þess að treysta jörðinni aftur á sama hátt og fyrir gosið í Fagradalsfjalli.

Spurningin er einfaldlega hvort fólk treystir sér aftur til Grindavíkur, og þó fólk treysti sér til þess að búa þar áfram, er það ábyrgt? Ég ætla ekki að þykjast vita svarið við þeirri spurningu heldur frekar gera tillögu um hvað þarf að gerast núna til þess að bregðast við því óvissuástandi sem nú blasir við öllum.

Það þarf að frysta húsnæðislán fólks. Það er óboðlegt að fólk þurfi bæði að greiða leigu fyrir hvaða húsnæði sem það nær að útvega sér og afborganir af húsnæðislánum. Það er í rauninni enginn kostnaður fyrir lánastofnanir að hliðra láninu tímabundið. Sá fjármagnskostnaður sem hlýst af frystingu lánsins fyrir lánveitendur endurheimtist auðveldlega í enda lánsins.

Náttúruhamfaratryggingar hljóta að ná utan um þann skaða sem orðið hefur á Grindavík. Jafnvel þó húsin sjálf séu óskemmd, þá er líklegt að það sé ekki hægt að búa lengur í þeim vegna þeirra jarðskjálfta og eldgosahættu sem mun vera á þessu svæði næstu áratugina að minnsta kosti. Þetta er einfaldlega ákvörðun sem þarf að taka eigi síðar en strax, hvort tryggingarnar nái utan um þennan skaða eða ekki. Ef ekki þá tel ég að eitthvað sé gallað í tryggingarskilmálum og ríkið verður því að grípa inn í málin sem einhvers konar milliliður.

Þetta tvennt, frysting lána og náttúruhamfaratrygging, leysir ekki vandann. Við búum enn við mikinn húsnæðisvanda á Íslandi sem þarf að leysa. Ef þessir atburðir drífa okkur ekki í því að leysa þennan vanda þá veit ég ekki hvað þarf til þess. Á sama tíma má spyrja sig gríðarlegra stórra spurninga, miðað við hvernig gengur að leysa húsnæðisvanda Grindvíkinga - hvers vegna var ekki hægt að bregðast við á sama hátt áður, því húsnæðisvandinn er búinn að vera til staðar síðan stuttu eftir hrun.

Ég mun fylgjast með því af miklum áhuga hvaða lausnir stjórnvöld koma með og hversu hratt þær lausnir munu gagnast fólki. Það tekur tíma að byggja en það væri vel hægt að koma fyrir tímabundnum úrræðum á meðan varanlegra húsnæði er byggt. Það er auðvitað ekki æskilegt en það er fátt við þessa atburði sem er æskilegt til að byrja með. Allt of lengi hefur dregist á langinn að leysa húsnæðisvandann. Ef hann hefði verið leystur væri þetta ekki eins flókið.