Efnisyfirlit

Alþingi án ríkisstjórnar

   10. nóvember 2023     2 mín lestur

Í lok árs 2017 var engin ríkisstjórn á Íslandi. Hún sprakk hressilega út af uppreist æru málinu og boðað var skyndilega til kosninga. Illa gekk að búa til ríkisstjórn í kjölfar þeirra og voru fjárlög það árið þess vegna að miklu leyti ákveðin af Alþingi en ekki af ríkisstjórninni. Sú fjárlagavinna var töluvert frábrugðin venjulegri fjárlagavinnu í þinginu þar sem hún snýst að miklu leyti um að bíða eftir nákvæmari útfærslum ríkisstjórnarinnar á hinum ýmsu fjárheimildum. Um leið og þær tillögur berast þinginu fer málið úr nefnd og inn í þingsal. Ekki af því að fjárlagavinnunni sé lokið, heldur af því að ríkisstjórnin er búin að ákveða að það þurfi ekki að gera neitt meira.

Samkvæmt stjórnarskrá er Ísland lýðveldi með þingbundna stjórn. Ríkisstjórn er í rauninni bara falið það hlutverk að framfylgja stefnu þingsins og þeim lögum sem sett eru. Það er ekkert náttúrulögmál að ríkisstjórnin sé með meirihlutavald á Alþingi, að ríkisstjórnin sé samansett af flokkum með meirihluta þingfólks, því að þegar allt kemur til alls standa þingmál og falla í einfaldari atkvæðagreiðslu. Það þarf enga ríkisstjórn til þess að slík atkvæðagreiðsla fari fram.

Ástæða þess að ég fjalla hér um ríkisstjórnarlaust þing er af því ég tel að þingið þurfi í raun og veru að starfa meira eins og það sé enginn fyrirfram ákveðinn meirihluti á þingi. Til þess að þingfólk geti bara greitt atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu, líkt og gert er ráð fyrir í stjórnarskrá.

Það er nefnilega allt of oft sem mál komast ekki í atkvæðagreiðslu í þinginu og þegar þau komast þangað eru ríkisstjórnarflokkarnir bara búnir að ákveða niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, hver svo sem raunveruleg sannfæring þingfólks ríkisstjórnarflokkanna er. Málstaðnum er fórnað fyrir samstarfið. Það þýðir að jafnvel þó að það sé meirihluti fyrir einhverju máli á þingi þá nær sá meirihluti ekki fram að ganga - gagngert út af ríkisstjórnarsamstarfi sem kemur þá í veg fyrir framfarir sem meirihluti þingfólks er sammála um.

Er það málefnalegt? Er verið að vinna fyrir almenning með svona vinnubrögðum? Nei, augljóslega ekki. En samt gerist þetta. Þá hljótum við að spyrja okkur hvernig sé hægt að laga þetta? Hvernig er hægt að gera betur og tryggja að öll mál sem meirihluti er fyrir í þinginu verði samþykkt?

Eitt mögulegt svar er minnihlutastjórn. Önnur lausn væri að hafa frekar utanþingsráðherra. Hvað svo sem því líður verður eitthvað að breytast til þess að þjóðþrifamál fái loks atkvæðagreiðsluna sem þau mál eiga skilið. Einungis þannig getum við stigið upp úr skotgröfunum, með því að láta ekki ríkisstjórnina ráða þinginu, heldur öfugt.