Efnisyfirlit

Að sitja hjá

   1. nóvember 2023     2 mín lestur

Ég verð að viðurkenna að ég er dálítið dapur eftir atburði undanfarinna vikna. Sérstaklega eftir að ákveðið var að Ísland myndi sitja hjá í atkvæðagreiðslu um pólitíska ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðarástæðum.

Það er mikið óréttlæti í heiminum en af og til verður það yfirþyrmandi. Það var yfirþyrmandi þann 7. október síðastliðinn þegar Hamas réðist á landnemabyggðir Ísraela í grennd við Gaza. Það er ekki til afsökun fyrir slíkri árás. Það sama á við árás Ísraelshers á almenna borgara í Gaza í kjölfarið. Slíkt yfirþyrmandi óréttlæti þarf að fordæma… en Ísland sat hjá út af því að það var ekki sérstaklega bent á Hamas eins og breytingartillaga Kanada lagði til.

Nei. Það er heldur ekki bent sérstaklega á Ísrael í tillögunni sem var samþykkt. Þar er einfaldlega allt ofbeldið gagnvart almennum borgurum fordæmt… en Ísland sat hjá.

Af hverju skiptir það máli? Það er ekki eins og Ísland hafi verið á móti tillögunni er það? Tillaga Kanada var ekki samþykkt þrátt fyrir að hafa hlotið meirihluta atkvæða. Tillagan fékk 88 atkvæði á móti 55 á meðan 33 þjóðir sátu hjá, en það þurfti ⅔ atkvæða til að samþykkja tillöguna. Ef allar þjóðirnar sem kusu með tillögu Kanada hefðu kosið eins og Ísland hefði tillagan um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum einungis rétt svo verið samþykkt með 32 atkvæðum á móti 14. Þess vegna skiptir hjáseta máli.

Á Alþingi Íslendinga sitja þingmenn oft hjá í atkvæðagreiðslum af ýmsum ástæðum. Yfirleitt situr stjórnarandstaðan hjá í atkvæðagreiðslu um fjárlög af því að stjórnarandstaðan ber ekki ábyrgð á fjárlögum. Fjárlögin eru á ábyrgð meirihlutans, hversu góð eða slæm þau eru.

Í atkvæðagreiðslum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er engin spurning um einhverja ríkisstjórn sem ber ábyrgð. Þar er lögð fram stefna Íslands í atkvæðagreiðslum um hin ýmsu mál og í þessu máli sat Ísland hjá. Þegar spurt var um vopnahlé sagði Ísland í raun og veru að einhver annar ber ábyrgð á þeirri ákvörðun. Samt segir forsætisráðherra Íslands að Ísland styðji vopnahlé. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd. Forsætisráðherra segir “við styðjum” en atkvæðið segir “kemur okkur ekki við”, hvaða atkvæðaskýringu sem reynt er að troða upp á hjásetuatkvæðið.

Ofan í allt þetta segist forsætisráðherra ekki hafa vitað að þetta yrði afstaða Íslands en utanríkisráðherra segir að forsætisráðuneytið hafi verið látið vita, heilum 11 mínútum áður en atkvæðagreiðslan byrjaði. Ísland sat hjá þegar ályktað var um tafarlaust vopnahlé. Það er skráð stefna Íslands í atkvæðagreiðslu. Þar sem það skiptir máli þegar allt kemur til alls. Ekki hvað er sagt hver stefnan er heldur hvernig atkvæðin falla. Það skiptir máli hver stjórnar.