Efnisyfirlit

Trylltur dans múgsins

   23. október 2023     2 mín lestur

“Dansæðið, galdrafárið, hundurinn Lúkas. Æðið mun renna sitt skeið. Sagan sýnir þó að trylltur dans múgsins er sjaldnast skaðlaus”, skrifar Sif Sigmarsdóttir í Heimildina á laugardaginn.

Múgurinn skiptist í tvennt. Fólk sem er að reyna að lifa sínu lífi í sátt við samfélagið og fólk sem er að reyna að lifa lífi sínu þannig samfélagið eigi að vera sátt við það.

Átökin verða iðulega út af aðgerðum hópsins sem heimtar að aðrir eigi að vera öðruvísi en fólk skilgreinir sig sjálft. Birtingarmynd þess er þegar öryrkjar eru sagðir vera svindlarar, hælisleitendur afætur, hinsegin fólk … og þess háttar fordómafullar skoðanir. Gegn þessum skoðunum rís svo upp annar hópur þeim til varna - jafnvel með ómálefnalegum hætti.

Báðir þessir hópar geta gert eitthvað í þessum átökum á málefnalegan eða ómálefnalegan hátt - en stundum er mjög erfitt að átta sig á því hvort um málefnaleg sjónarmið er að ræða eða ekki. Þar eru mörk þessa skaða sem Sif skrifar um, að mínu mati.

Dæmi: Andúðin gegn hælisleitenum. Almennt séð hefur sú barátta verið þjóðernisleg frekar en málefnaleg þó inn á milli leynast málefnaleg rök. Þar sem málflutningurinn byggist helst á vantrausti gagnvart útlendingum er erfitt að ræða málefnalegu rökin og það er líklegra að úr verði múgæsingur þar sem engu máli skiptir hvað er satt og hvað ekki. Það er mannlegt.

Önnur mál sem eru einnig líkleg til þess að búa til múgæsing eru mál sem fjalla um börn (að verja þau, sjá nýlegt dæmi um kynfræðslu barna), kynhneigð, kynþættir, trú, …

Allar líkur eru á að í málum sem fjalla að einhverju leyti um þessi viðfangsefni að fordómar drífi áfram umræðuna að miklu leyti, milli þessara tveggja hópa sem ráðast að og þeirra sem verja. Milli þeirra sem vilja að aðrir hagi sér eins og þau vilja - séu ekki hommar, nýkapítalistar eða kommar. Og þeirra sem verja rétt þeirra sem ráðist er að fyrir að vera eins og þau eru. Því að um leið og fordómarnir fá útrás þá ganga þeir á frelsi fólks til að vera þau sjálf.

Réttlætiskennd drífur áfram baráttu beggja hópa og á meðan öðrum finnst ekki tekið tillit til sinna skoðanna eflist hópurinn í afstöðu sinni og öfgum. Það er mannlegt en ekki endilega hollt. Ekki þegar öfgarnar ganga enn frekar á frelsi annara, ef rasisminn, hatrið eða jafnvel vörnin verður of hörð.

Þess vegna verðum við að virða og skilja áhyggjur fólks áður en fólk forherðist. Ef fólk lendir statt og stöðugt í mótlæti og óréttlæti þá berst það harðar og harðar á móti.

Við þurfum alltaf að spyrja okkur hvaðan múgæsingurinn er að koma. Er æsingurinn til þess að ráðast á einhverja eða til að verja einhverja og ef um vörn er að ræða, er hún orðin að árás? Sjálfsvörn? Það er nefnilega ekki allur múgæsingur eins.