Efnisyfirlit

Óheiðarleg vörn ráðherra

   13. október 2023     2 mín lestur

Þann 1. október mætti ég á Sprengisand ásamt forsætisráðherra. Þar sagðist ég ekki hafa hitt einn útlending sem tryði því að fjármálaráðherra sem hefði selt föður sínum hlut í ríkisbanka væri enn ráðherra.

Forsætisráðherra, svaraði því að ekkert sem ég sagði stæðist neina skoðun. Að þetta væri bara orðasalat hjá mér. En svo kom álit umboðsmanns sem sagði að fjármálaráðherra hafi brostið hæfi til að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka vegna þess að faðir hans var einn af kaupendunum.

Auðvitað. Það er augljóst. Þetta er skólabókardæmi um hagsmunaárekstur. Það er ótrúlegt að fjármálaráðherra, ríkisstjórnin og stjórnarliðar hafi tekist að verja fjármálaráðherra í eitt og hálft ár í kjölfarið á þessari spillingu.

Já, spillingu. Því það er það sem þetta heitir. Og þar skiptir ekki máli hvort fjármálaráðherra vissi hvort faðir hans var að kaupa eða ekki, því ráðherra ber skylda til að sanna að það séu engir hagsmunaárekstrar þegar hann tekur ákvörðun. Þetta á fjármálaráðherra, forsætisráðherra, öll ríkisstjórnin og allur meirihlutinn að vita.

Þegar fjármálaráðherra sagði af sér sagðist hann virða niðurstöðu umboðsmanns, en að hann væri ekki sammála álitinu. Ráðherra sagði að margt í álitinu hefði verið í andstöðu við ráðleggingar. En við vitum alveg hvernig pöntuðu lögfræðiálitin virka. Þannig að það eru ekki rök í sjálfu sér.

Ráðherra fullyrðir að hann hafi ekki haft upplýsingar um að hann væri að selja föður sínum, sem eru heldur ekki rök. Það er viðurkenning á sök. Ráðherra getur ekki sannað að hann hafi ekki vitað neitt. Þannig er sönnunarbyrðin vegna hagsmunaárekstra. Ráðherra segir meira að segja að hann hafi ekki haft ástæðu til þess að skoða hæfi sitt af því að engar upplýsingar voru um vanhæfi. Slík hringrök eru fáránleg.

Verst er afsökun ráðherra að fyrst ekki var gerð athugasemd við stjórnsýslu fyrra útboðsins þá hljóti seinna útboðið að vera í fína lagi lika af því að aðkoma ráðherra var sú sama í þeim báðum. Það er augljóslega rangt þar sem fyrra útboðið var opið útboð þar sem allir máttu taka þátt en það seinna lokað og bara fyrir suma. Það stendur beinlínis í lögum að ráðherra eigi í tilfelli lokaðra útboða að meta hvert tilboð.

Útskýringar ráðherra þegar hann segir af sér eru því óheiðarlegar miðað við þau lög sem hann átti að starfa samkvæmt. Því verður að spyrja þeirrar einföldu spurningar, hvernig er ráðherra að bera virðingu fyrir áliti umboðsmanns? Enn fremur verður að spyrja forsætisráðherra hvað stenst skoðun í dag. Er forsætisráðherra sátt við að fráfarandi fjármálaráðherra fari svona óheiðarlega með álit umboðsmanns? En stjórnarmeirihlutinn sem sló upp varnarkór í kringum fjármálaráðherra? Hvenær fá þau nóg af óheiðarleikanum?