Efnisyfirlit

Á sandi byggði ...

   3. október 2023     1 mín lestur

Á fundi Landssambands eldri borgara á mánudaginn síðastliðinn sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, að það væri ekki raunhæft að fjármagna lágmarksframfærslu fólks. Nákvæmlega þá sagði ráðherra að kostnaðurinn væri ekki raunhæfur.

Til að byrja með vitum við ekki hver lágmarksframfærsla er. Það er hægt að finna ákveðin framfærsluviðmið hjá Umboðsmanni skuldara og hjá Félagsmálaráðuneytinu. En þau viðmið eru án húsnæðiskostnaðar. En enginn á Íslandi getur verið án húsnæðis. En þó við vitum ekki hver lágmarksframfærsla sé, þá vitum við þessi fyrrnefndu framfærsluviðmið og við vitum hver lágmarkslaun eru. Lífeyrir almannatrygginga eru þar vel undir.

En er kostnaðurinn óraunhæfur? Í fyrsta lagi, nei. Það breytir bara skiptingunni. Það sem er áhugaverðara er að núverandi skipting þýðir að fólk sem lifir af framfærslu almannatrygginga, sem er vel undir lágmarksviðmiðum, er því í raun að taka á sig tekjuskerðingu til þess að hægt sé að fjármagna eitthvað annað. Til þess að aðrir geti haft meira á milli handanna. Um leið og félagsmálaráðherra segir að það sé ekki raunhæft að fjármagna lágmarksframfærslu almannatrygginga er einfaldlega verið að segja við fátækasta fólkið að það verði að herða sultarólarnar til þess að hægt sé að fjármagna eitthvað annað. Fleiri ráðuneyti, endalausa starfshópa, nýja vél í skip Samherja, ….

Þess vegna hefur þingflokkur Pírata lagt fram þingsályktunartillögu um sáttmála um laun starfsstétta grunninnviða og lágmarksframfærslu. Við þurfum að tryggja grunninn til þess að geta byggt eitthvað upp.

Til þess að hægt sé að uppfylla lágmarksréttindi fólks þurfa að vera til viðmið um lágmarksframfærslu. Framfærsluviðmiðið getur verið mismunandi eftir aðstæðum fólks, t.d. aldri, staðsetningu og líkamlegri heilsu. Almennt séð þá á lágmarksframfærsla að ná til þess kostnaðar sem telst til nauðsynja ásamt svigrúmi til annarra útgjalda til þess að tryggja að fólk hafi sjálfstætt lágmarksval um eigið líf.

En það er ekki nóg að skilgreina lágmarksframfærslu, það verður líka að tryggja að hún haldi verðgildi sínu. Þess vegna hafa Píratar einnig lagt fram lagabreytingu um að lífeyrir almannatrygginga hækki á sama hátt og laun þingmanna. Vandinn hefur nefnilega verið að lífeyrir hefur ekki haldið í við launaþróun. Lífeyrir öryrkja ætti til dæmis að vera um 64% hærri miðað við launaþróun frá 1997.

Þessar breytingar eru grundvöllurinn fyrir stöðugleika. Án þess að hagkerfið hafi fast akkeri í traustum grunni mun kerfið alltaf búa til fátækt fólk. Þetta er ekki spurning um að það sé “raunhæft” að fjármagna lágmarksframfærslu, það er sanngjarnt og nauðsynlegt.