Efnisyfirlit

Frelsið til þess að svindla á öðrum

   25. september 2023     2 mín lestur

Í lok ágúst birti Samkeppniseftirlitið ákvörðun sína eftir rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaðan var 4,2 milljarða króna sekt vegna víðtækra brota í sama máli og Eimskip höfðu áður viðurkennt brot í og gert sátt að ljúka. Brotin fjalla um ólögmætt samráð yfir langan tíma til þess að búa til og við halda einokunarstöðu félaganna tveggja á flutningum til og frá Íslandi.

Það er erfitt að segja hvert umfang skaðans var vegna þessarar einokunar, en það er víst að hún hafði áhrif á allt efnahagskerfi landsins, allt frá vöruverði til afborgana fólks af húsnæðislánum. Hvert eitt og einasta heimili í landinu tapaði, líklega tugum þúsunda a.m.k.

Í kjölfarið kallar ritstjóri Morgunblaðsins eftir niðurskurð hjá Samkeppniseftirlitinu (SKE), þó með tilvísun í rannsókn SKE á eignatengslum í sjávarútvegi. En í því máli gerði Matvælaráðuneytið samning við SKE um slíka rannsókn og þegar SKE fór að beita dagsektum til þess að fá afhent gögn var það úrskurðað ólöglegt. Ekki vegna þess að SKE sé bannað að beita dagsektum í rannsóknum sínum heldur vegna þess að uppruni rannsóknarinnar var rakinn til Matvælaráðuneytisins, sem hafði ekki heimildir til þess að beita dagsektum. Vandinn var að ekki er sérstakt lagaákvæði um að SKE sé heimilt að gera samninga um einstaka athuganir.

Þetta er áhugavert í ljósi þess að Fjármálaráðherra hefur ítrekað beðið Ríkisendurskoðanda að framkvæma ýmis konar rannsóknir. Síðasta slíka beiðnin var vegna sölunnar á Íslandsbanka. Sérstök lagagrein er um hvernig hægt sé að biðja um skýrslu frá Ríkisendurskoðanda, það getur Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis gert eða 9 þingmenn í þingsal. Ekki fjármálaráðherra.

Samkeppniseftirlitið mátti ekki nota lagalegar heimildir sínar vegna þess að beiðni um rannsókn kom frá Matvælaráðuneytinu en það var ekkert mál fyrir Ríkisendurskoðanda þó rannsóknarbeiðnin kæmi frá fjármálaráðherra. Það er eitthvað órökrétt í gangi hérna.

Eitt verður yfir alla að ganga, út á það gengur réttarríkið. Það er grundvöllur þess frelsis sem við teljum okkur hafa - að réttlætið sé jafnt fyrir alla. Ýmsir valdamiklir aðilar vilja hins vegar ekki þurfa að lúta sömu reglum og aðrir og beita öllum ráðum til þess að tryggja stöðu sína.

Hjá flokki atvinnufrelsis, Sjálfstæðisflokknum, hefur oft verið agnúast út í Samkeppniseftirlitið. En í óheftu atvinnufrelsi finna sumir tækifæri í að svindla á öðrum með samráði. Það gleymist nefnilega alltaf í kröfunni um óheft frelsi að það takmarkast við skaðann sem það veldur öðrum. Það er ekki frelsi til athafna í einokunarumhverfi, þar felst frelsið í því að fá að svindla á öðrum Það er ekki alvöru frelsi. Við skulum því gera betur, eflum samkeppnisvarnir.