Efnisyfirlit

Tekjur ríkissjóðs umfram áætlanir en ekki nægir peningar til fyrir börnin

   18. ágúst 2023     2 mín lestur

Þegar þing var sett mætti hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra í ræðustól Alþingis og sagði: „Af öllu því sem við gerum er skólakerfið ekki bara mest stefnumótandi til framtíðar heldur eru gæði þess og styrkur það lang mikilvægasta sem við gerum til að tryggja farsæld næstu kynslóðar.“

Hér er ég 100% sammála, jafnvel 110%.

Og hæstvirtur ráðherra sagði líka: „Það er […] staðreynd að á Íslandi eiga ekki öll börn jafna möguleika á farsæld, alveg öfugt við þau gildi sem við höfum í hávegum og þau orð sem fram koma í lögum og stefnum.“

Þetta er líka alveg 100% rétt.

Enn segir ráðherra: „Í þessu verkefni erum við að sjálfsögðu háð þeim ramma, þeim fjárheimildum og verkfærum sem úthlutað hefur verið til verkefnisins“.

Hér er ég 100% ósammála ráðherra. Það er nefnilega ríkisstjórnin sem tekur að sér meirihlutavald sem forgangsraða fjárheimildum og það sést í verkum þeirra. Skólakerfið, það langmikilvægasta sem við gerum til þess að tryggja farsæld næstu kynslóðar, er svo neðarlega á forgangslista ríkisstjórnarinnar að hún þarf að „velja milli farsældar og jöfnuðar meðal barna“ og „að viðhalda rótgrónum stofnunum“, eins og ráðherra orðar það.

Þörf á slíku vali er skýr vitnisburður um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, að eini möguleikinn til þess að viðhalda farsæld og jöfnuði meðal barna er að sameina í framhaldsskóla. Eins og það hafi einhver áhrif á „að of mörg börn og ungmenni nái ekki fullnægjandi námsárangri“.

Hversu varhugaverð er staðan innan skólakerfisins ef farsæld og jöfnuður meðal barna stendur og fellur með meintri 400 milljón króna hagræðingu sem fæst með sameiningu skóla á Akureyri. Mikið rosalega hlýtur að vera búið að ganga á forgangsröðun ríkisins ef það er algerlega ómögulegt að finna aðrar lausnir. Sérstaklega á meðan fjármálaráðherra hrósar happi yfir auknum tekjum umfram áætlanir og betri afkomu en búist var við.

Ég veit ekki hvort það er skortur á ímyndunarafli að sjá engar aðrar lausnir til þess að tryggja farsæld barna, til dæmis í grunnskóla, en með sameiningu framhaldsskóla á Akureyri. Ég held að það hljóti allir að sjá að staðan er mjög skrítin. Á meðan samfélagið er á fleygiferð, samkvæmt fjármálaráðherra, hrópar mennta- og barnamálaráðherra sömu ríkisstjórnar á hjálp. Það eru ekki til nægir peningar fyrir börnin.

Á sama tíma eru skilaboð forsætisráðherra að við séum á réttri leið og nú þurfi að tryggja að batinn sem sé framundan skili sér inn í íslenskt samfélag.

Mín skilaboð til mennta-og barnamálaráðherra eru að beina fjárbeiðnum sínum til samstarfsmanna hans í ríkisstjórn. Líkt og ráðherra segir þá er skólakerfið það sem tryggir farsæld barnanna okkar. Ef hann getur ekki tryggt þessum málaflokki fjármagn hver getur það þá?