Efnisyfirlit

Lagar stofnun lög?

   18. ágúst 2023     2 mín lestur

Sitt sýnist hverjum um umsækjendur um alþjóðlega vernd en ég held að við getum öll verið sammála um að lögin þurfa að vera skýr og mannréttindi þurfa að vera virt. Umræðan bendir samt til þess að fólk er ekki alveg sammála um hver þau réttindi eiga að vera. Það er þó öllu verra þegar fólk og flokkar innan ríkisstjórnarinnar eru ekki sammála um hver réttindi flóttafólks eru samkvæmt þeim lögum sem þau sömdu og samþykktu sjálf. Félags- og vinnumarkaðsráðherra segir að þegar fólki er þjónustusvipt þá eigi sveitarfélögin að taka við og þjónusta fólkið á meðan dómsmálaráðherra og sveitarfélögin telja að það sé ekki skylda sveitarfélaganna að sinna þjónustunni.

Sem betur fer erum við með forsætisráðherra sem ber ábyrgð á ríkisstjórnarsamstarfinu og getur sagt okkur hver stefna ríkisstjórnarinnar sé … eða hvað?

Nei, svör forsætisráðherra eru að þarna sé ágreiningur sem leysa þurfi með því að kalla eftir lögfræðiáliti frá Lagastofnun Háskóla Íslands. Það er eins og hún viti ekki hvaða breytingar á lögunum hún var að samþykkja fyrr á árinu, forsætisráðherra þarf að spyrja lagastofnun hvað breytingarnar sem þau gerðu sjálf þýða. Það er pínulítið skondið, ef satt skal segja. Sérstaklega í ljósi þess að þingmenn Pírata eru margbúnir að benda á að þetta yrðu afleiðingarnar.

Málið verður enn undarlegra þegar það er skoðað nánar. Þegar útlendingafrumvarpið var í vinnslu þingsins sendu sveitarfélögin umsagnir þar sem þau viðruðu áhyggjur af ákvæðinu um þjónustusviptingu og bentu á að frekara samtal þyrfti að eiga sér stað milli ríkis og sveitarfélaga þar sem þau væru ekki í stakk búin til að taka við þessu verkefni. Píratar bentu einnig á að ef sveitarfélögin myndu taka við þjónustunni þá yrði þjónustan, lögum samkvæmt, meira að segja dýrari en hún er núna. Píratar kölluðu eftir því að félags- og vinnumarkaðsráðherra útskýra þetta en ekkert gerðist, hvorki í nefnd né í umræðu málsins. Það var ekki fyrr en í atkvæðagreiðslu að ráðherra sagði að “15. gr. félagsþjónustulaganna grípi fólk sem heyrir ekki undir undanþágur ef það fer ekki úr landi.”

Píratar báðu ítrekað um að þingið myndi frá lögfræðiálit frá Lagastofnun Háskóla Íslands um hvort frumvarpið stæðist stjórnarskrá. Því var þverneitað. Núna, þegar lögin hafa tekið gildi og búið er að vísa fólki út á götu, vill forsætisráðherra fá álitið sem Pírötum var áður neitað um..

Það hlýtur líka að vera lágmarkskrafa að ríkisstjórnin sé sammála um það hvernig lögin sem hún leggur fram eiga að virka og að þau standist stjórnarskrá. Það er því mjög kaldhæðnislegt að forsætisráðherra þurfi nú að leita til Lagastofnunnar, sem mátti alls ekki leita til þegar Píratar báðu um það, til þess að skilja eigin lög.