Efnisyfirlit

Að tala af skynsemi

   9. ágúst 2023     2 mín lestur

Hvernig veit ég hvort það sem ég segi er skynsamt eða ekki? Það sem er ennþá erfiðara, hvernig veit ég að það sem þú segir er skynsamt eða ekki? Þetta er spurning sem mér finnst mjög áhugaverð, sérstaklega út af einhverju sem má kalla “skynsemisstjórnmál”.

Mér finnst þetta mjög merkilegt hugtak, sérstaklega af því að fólk sem virðist hliðhollt þessari tegund stjórnmála á þann hátt að það minnist á “skynsemi” við hvert tilefni - hljómar ekkert rosalega skynsamlega frá mínum bæjardyrum. Látum það aðeins liggja á milli hluta nákvæmlega hvað er sagt og byrjum að átta okkur á því að - bara af því að einhver segist aðhyllast “skynsöm” stjórnmál, þá þýðir það bara alls ekkert að viðkomandi sé skynsamur.

Til að byrja með gæti viðkomandi í raun og veru haldið að skoðanir hans séu skynsamar, þegar þær eru það bara alls ekki. Viðkomandi gæti trúað því í einlægri alvöru. Það er líklegra en að um óheiðarleika sé að ræða, að viðkomandi segi óskynsamlega hluti þrátt fyrir að vita betur og kalli það bara skynsamlegt. Ljúgi, sem sagt. Þess vegna er enn erfiðara fyrir alla sem hlusta á meinta skynsemi, að greina á milli þess hvort um óskynsamlegar tillögur er að ræða eða ekki.

Hér er svo sem hægt að skipta út orðinu “skynsemi” fyrir ýmis önnur orð eins og “heiðarleiki”, “gagnsæi”, “rökhyggja” og svo framvegis. Eina leiðin til þess að komast að því hvort eitthvað sé heiðarlegt, skynsamt, rökrétt eða hvað það nú má vera - er að skoða staðreyndir málsins - og það er bara fjarri því að vera einfalt.

Tökum dæmi. Gefum okkur að það sé verið að selja ríkiseign. Til dæmis ríkisbanka. Sá sem selur bankann er fjármálaráðherra, eða eins og segir í lögum: “Ráðherra tekur ákvörðun um hvort tilboð skuli samþykkt eða þeim hafnað”. Nú langar pabba fjármálaráðherra rosalega mikið að kaupa hluta af þessum ríkisbanka og sendir inn kauptilboð. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir því að ráðherra má ekki selja pabba sínum neinar ríkiseignir, það væri hagsmunaárekstur, en þegar ráðherra er spurður út í þetta svarar hann bara “mátti pabbi ekki kaupa?”

Mér finnst þetta einstaklega gott dæmi um skynsemisstjórnmál. Þarna beinir ráðherra sjónum fólks að rétti pabba síns til þess að kaupa og frá hagsmunaárekstrinum sem fjallar um að hann megi ekki selja. Hvort tveggja getur nefnilega verið satt. Pabbinn má kaupa en ráðherra má ekki selja.

En einhverra hluta vegna, þrátt fyrir alla skynsemi, heiðarleika, gagnsæi og hvað það má nú vera. Þá sitjum við uppi með þá staðreynd að fjármálaráðherra Íslands seldi pabba sínum hlut í ríkisbanka og við þurfum að rökræða það eitthvað frekar hversu óviðeigandi það er. Hversu ólöglegt það hlýtur að vera? Er það þess vegna sem það má ekki fá rannsóknarnefnd?