Efnisyfirlit

Spennandi tímar í stjórnmálum

   29. júlí 2023     2 mín lestur

Það er enn júlí og merkilegt nokk þá er engin gúrkutíð í stjórnmálum landsins eins og venjulega. Það eru herkvaðningar á hægri vængnum og stórkostlega miklar breytingar samkvæmt skoðanakönnunum á fylgi flokka miðað við niðurstöður síðustu kosninga (þessara sem snérust um talningu í Borgarnesi, munið þið?).

Lindarhvolsmálið er umfangsmikið, þar ganga ásakanir ríkisendurskoðenda á milli um alls konar vinnubrögð. Undir eru milljarðar af almannaeigum sem voru líklega seldar með úreldu verðmætamati - og þar af leiðandi með töluverðum afslætti. Í miðju þeirra mála er auðvitað fjármála- og efnahagsráðherra sem átti ekki að skipta sér neitt af starfsemi Lindarhvols en skipar þar stjórn og útvegar stjórninni eiginlegan framkvæmdastjóra.

Svo er það Íslandsbankamálið. Það er enn að ganga fram og til baka á milli ráðuneytis og Umboðsmanns Alþingis sem er að spyrja út í hæfi fjármálaráðherra til að selja föður sínum hlut í Íslandsbanka. Það á ekki að þurfa að segja neinum að ráðherra getur auðvitað ekki selt fjölskyldumeðlimum neinn hluta í ríkiseigu, en samt erum við enn að spyrja.

Einnig er það hvalamál matvælaráðherra. Umboðsmaður er einnig að spyrja um stjórnsýsluákvarðanir í því máli. Þó ég telji að tekin hafi verið rétt ákvörðun út frá dýraverndarsjónarmiðum þá er alveg ágætlega líklegt að ekki hafi verið fylgt góðri stjórnsýslu upp á punkt og prik. Ef það bakar ríkinu skaðabótaskyldu þá er matvælaráðherra í jafn stórum vanda og skaðabæturnar verða.

Til viðbótar eru það svo lýsingar á atferli mennta- og barnamálaráðherra í þáttunum “lömbin þagna ekki”, endurteknar fréttir um að ríkisstjórnin sé ekki að gera neitt í loftslagsmálum, húsnæðisvandinn virðist vera eilífur, heilbrigðiskerfið glímir enn við mönnunarvanda og fulltrúar löggæslunnar sjást orðið með byssur út um allt á sama tíma og þau eru einnig undirmönnuð í því flóði ferðamanna sem allir innviðir eru að drukkna í … en gróðinn sko. Ferðamennirnir koma með svo mikinn pening að við verðum bara að læra að synda.

Í þessu ástandi er herkvaðning hjá hægrinu, sem lætur eins og öll þessi vandamál séu vegna þess að matvælaráðherra vildi ekki að það væri verið að kvelja hvali. Það er líklega réttara að segja að hávaðinn í hægrinu sé vegna þess að þau skilja það vel í hversu slæmum málum þau eru í raun og veru í ef samtryggingin brestur miðað öll spillingarmálin sem blasa við okkur. Ég meina, segið hvaða útlending sem er að “the minister of finance sold his dad shares of a government bank and he’s still a minister” og fylgist með viðbrögðunum. Í alvörunni, prófið. Það er mjög áhugavert því glöggt er gests augað.

Hvernig fer þetta allt saman? Fylgist með í seríu 7 af Ríkisstjórnin, hjónaband í herkvaðningu.