Efnisyfirlit

Að skipta um þjóð?

   20. júlí 2023     2 mín lestur

Nýlega er haft eftir Eyjólfi Ármannsyni, þingmanni flokks fólksins, að verið sé að „skipta um þjóð í landinu”. Þetta bergmálar skoðanir sem hafa birst í Morgunblaðinu, í grein Ögmundar Jónassonar „að losa þjóðina við landið og landið við þjóðina”, sem og nokkrum öðrum greinum.

Skoðunin virðist koma frá nokkrum mismunandi sjónarhornum. Eyjólfur vitnar í „stjórnlausan” málaflokk hælisleitenda á meðan Ögmundur kennir hraðvexti efnahagslífsins um. Önnur sjónarmið eru um glóbalisma, marxíska fjölmenningu og gróðabraskara sem nýta sér eymd fólks. Niðurstaðan er hins vegar sú sama hjá þeim öllum, að verið sé að skipta um þjóð í landinu.

Það þarf ekki að leita langt að svipuðum málflutningi erlendis. Renaud Camus setti fram tilgátu um “the great replacement” fyrir rúmum áratug síðan. Þar er samhljómur með „white genocide” frá því í lok síðustu aldar eða „le Péril jaune” frá lokum þarsíðustu aldar.

Það er merkilegt að komast að þessari sömu niðurstöðu út frá mismunandi ástæðum og þá er eðlilegt að spyrja hvort niðurstaðan sé rétt?

Ef marka má fyrri tilgátur um sama efni þá er hægt að segja án nokkurs vafa að svarið við því er nei. Gyðingar voru t.d. ekki viljandi að flytja inn fólk með annan húðlit en pastel-hvítan eins og byssumaðurinn í Pittsburgh hélt fram árið 2019. Ástrali sem myrti 51 mann í Christchurch réttlætti morðin með tilvísun í “the great replacement”. Dæmin eru mikið fleiri.

Ég ætla ekki að gera þessum herramönnum upp sama rasisma og þetta fólk sem hefur framið morð með þessi sömu orð á vörunum. En öfgar verða ekki til á einni nóttu og sagan segir okkur að svona málflutningur getur haft banvænar afleiðingar. Að komast að þeirri niðurstöðu að verið sé að „skipta um þjóð” í landinu er ekki rétt og er lífshættulegt.

Vandinn er samt til staðar. Það er pólitískur vandi í málefnum hælisleitenda. Glóbalisminn er gallaður og það eru gróðabraskarar að nýta sér eymd fólks. Þetta eru ekki séríslensk vandamál né eru Íslendingar saklausir gagnvart því að búa til þann vanda. En að halda því fram að einhverjir séu viljandi að skipta um þjóð í landinu er banvæn og röng hugmynd sem verður að hafna - án þess að hafna vandanum.

Staðan er að það er fólk í vanda. Við þurfum því að spyrja okkur þeirrar gríðarlega stóru spurningar; hvernig getum við hjálpað? Í dag notum við peninga sem er skammtað í þróunaraðstoð til þess að borga fyrir kostnað vegna hælisleitenda. Er það nóg? Eða ætlum við að gera greinarmun á fólki út frá húðlit, hárlit eða því hvort fólk er örvhent?

Við megum að minnsta kosti ekki glepjast af þeim hræðsluáróðri að hér sé verið að skipta um þjóð. Það er einfaldlega ekki satt. Þjóðin er og verður alltaf allt fólkið sem byggir þetta land.