Efnisyfirlit

Lindarhvoll ... Hvað er málið?

   11. júlí 2023     1 mín lestur

Í síðustu viku var greinargerð setts ríkisendurskoðanda birt. Í kjölfarið tók varnarkórinn við sér og sagði að ekkert nýtt hefði komið fram, að birtingin stangist á við reglur, engin lög brotin, þetta er ekki endanleg skýrsla … og svo framvegis.

En þetta almenna væl í varnarkórnum eru bara innihaldslausar yfirlýsingar. Það eru atriði þarna sem við vissum ekki um, og nei, þetta er ekki endanleg skýrsla. Það vita það allir. Þess vegna rýnum við í þær ábendingar sem fram koma í greinargerðinni og berum þær saman við lokaskýrsluna.

Eitt skýrasta dæmið sem við sjáum er aðkoma verktakans í þessu máli. Látum í þessum stutta pistli ýmislegt annað liggja á milli hluta - hvernig spurningum setts ríkisendurskoðanda var ekki svarað, óútskýrðar kostnaðargreiðslur upp á 10.8 milljarða, vanmatið á virði eignanna og svo mætti lengi telja. Einbeitum okkur að verktökunni sem skýrsla ríkisendurskoðunar sagði að væri bara í fína lagi.

Þegar Alþingi afgreiddi “Project Lindarhvol” þá var reynt að fjarlægja söluferlið eins langt frá pólitíkinni og hægt var með því að: “hvorki Seðlabankinn né ráðherra hafi afskipti af verkefnum félagsins”, eins og fram kom í lagafrumvarpinu. Það fyrsta sem gerist hins vegar er að fjármálaráðherra skipar skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu og framkvæmdastjóra eignarhaldsfélags Seðlabankans, eins og fram kemur í lokaskýrslunni. Það sem kom hins vegar ekki fram í skýrslunni er hversu mikil aðkoma Steinars Þ. Guðgeirssonar, eiganda lögmannsstofunnar Íslaga ehf., var.

Í greinargerð setts ríkisendurskoðanda kemur fram að Steinar hafi mætt á fyrsta stjórnarfund Lindarhvols með prókúru á reikning félagsins í Landsbankanum og drög að verktakasamningi við sjálfan sig. Þessi athugasemd setts ríkisendurskoðanda er fjarlægð úr lokaskýrslunni, sem er mjög áhugavert. Steinar hafði áður verið helsti ráðgjafi fjármálaráðuneytisins varðandi stöðugleikaeignirnar og var, miðað við þetta, einfaldlega settur í að halda áfram því verki innan Lindarhvols. Þrátt fyrir vilja þingsins til þess að fjarlægja söluferlið frá Seðlabanka og ráðherra.

Settur ríkisendurskoðandi komst að því að þessi skipan hafi “ekki tekið nægjanlegt tillit til krafna um aðskilnað starfa, ábyrgðar og innra eftirlits sem hefðu átt að vera til staðar við framkvæmd verkefnisins.” Er þetta lögbrot? Kannski. Þetta er a.m.k. ekki traustvekjandi og mjög erfitt að sjá hvernig armslengdarsjónarmið standist. Það er enginn sem getur veitt Steinari prókúru á reikning Lindarhvols fyrir fyrsta stjórnarfund félagsins nema ráðherra sem á félagið. Eiginlegur framkvæmdastóri félagsins er þannig handvalinn af ráðherra og það er bara ekki hægt að horfa fram hjá því sama hvað varnarkórinn syngur.