Efnisyfirlit

Enginn ráðherra getur svarað ...

   22. júní 2023     2 mín lestur

… þessari spurningu.

Sif Sigmarssdóttir skrifaði pistil í Heimildina í síðustu viku sem heitir “Lögföst spilling og niðurlæging þjóðar”. Pistillinn fjallar einfaldlega um, eins og þar er dregið saman að Bret­ar “hafa sett stjórn­mála­stétt sinni tak­mörk. Þar mega feð­ur ráð­herra ekki kom­ast í ná­lægð við spen­ann. Á Ís­landi fá feð­ur ráð­herra að kaupa í bönk­um sem rík­ið sel­ur.” Í lok pistilsins spyr Sif svo þessarar einföldu spurningar: “Hvar hyggjumst við Íslendingar draga línuna?

Þetta er mjög áhugaverð og viðeigandi spurning. Mér myndi finnast gríðarlega áhugavert að sjá ráðherra núverandi ríkisstjórnar svara þessari spurningu á opinskáan og heiðarlegan hátt. Ég held nefnilega að enginn ráðherra í núverandi ríkisstjórn geti svarað þessari spurningu. Ekki án þess að grípa til klassískra aðferða eins og að segja fullt af orðum sem hljóma eins og svar en eru bara vikugamla salatið í neðstu skúffunni í ísskápnum. Pólitíkusar eru nefnilega mjög góðir í salatgerð.

Það eru til nokkrar uppskriftir af orðasalati pólitíkusanna. Útúrsnúningurinn er algengastur í salatinu þar sem spurningin er túlkuð í að þýða eitthvað annað. Afbrigði af útúrsnúningum er afvegaleiðing og gaslýsing. Ráðherra svarar til dæmis spurningu um núverandi stöðu í húsnæðismálum, heilbrigðismálum og fátækt á þann hátt að segja hvað sé búið að gera mikið nú þegar - þrátt fyrir að staðan hafi ekkert batnað.

Ef við förum yfir hin ýmsu spillingarmál undanfarinna ára, feluleikinn með skýrsluna, Lindarhvol, Íslandsbanka, sendiherrakapalinn, Orka energy, Borgun, aksturskostnaður, endalaust margar pólitískar skipanir í fagleg embætti, Borgarnesmálið … og svo framvegis. Þá ætla ég að fullyrða að enginn núverandi ráðherra getur setið einn fyrir svörum í klukkutíma löngum sjónvarpsþætti og svarað þessari spurningu með tilliti til þessara mála á einfaldan og skýran hátt. Hvar hyggjumst við Íslendingar draga línuna?

Er í lagi að fjármálaráðherra selji pabba sínum hlut í ríkisbanka í lokuðu útboði? Er í lagi að rukka Alþingi um aksturskostnað vegna sjónvarpsgerðar? Er í lagi að fela skýrslu um skattaskjól og sölu opinberra eigna? Er í lagi að sendiherrastöður séu notaðar sem pólitísk skiptimynt? Og þá að lokum, ef það er ekki í lagi, ættum við ekki að draga línu í sandinn og segja að hér þurfi einhver að bera ábyrgð. Raunverulega ábyrgð, en ekki bara “ég fékk fullt af atkvæðum í síðustu Alþingiskosningum og þá er ég hvítþveginn”. Það hafa nefnilega verið svör formanns Sjálfstæðisflokksins. Allt er afsakað af því að það eru búnar að vera kosningar. Það þarf enginn að segja af sér eða fara jafnvel í fangelsi af því að það voru kosningar.

Er það nóg? Hvar eigum við að draga línuna?