Efnisyfirlit

Skilgreiningin á geðveiki

   13. júní 2023     1 mín lestur

Fræg setning, oft tileinkuð Albert Einstein, segir að skilgreiningin á geðveiki sé að reyna að gera það sama aftur og aftur og búast við öðrum niðurstöðum í hvert skipti. En þetta er hvorki skilgreiningin á geðveiki né nokkuð sem Einstein ku hafa sagt. Það er mjög skrítið að endurtaka sömu mistökin aftur og aftur og búast við því að í næsta skipti verði bara allt í góðu lagi.

Þetta gæti verið pistill um verðbólguna eða húsnæðisvandann. Það er sífellt verið að reyna sömu gömlu brögðin aftur og aftur og búist við að núna muni allt ganga upp og verða betra. En þetta er pistill um heilbrigðiskerfið, geðheilbrigðiskerfið.

Þann 31. maí var samþykkt aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir næstu fjögur árin, árið 2023 þar með talið. Þeirri aðgerðaáætlun fylgdi kostnaðarmat upp á 3,2 milljarða á tímabili fjármálaáætlunar. Í fjármálaáætluninni var gert ráð fyrir 200 milljónum samtals fyrir árin 2024 og 2025 samkvæmt gögnum heilbrigðisráðuneytisins. Píratar lögðu því fram breytingartillögu við fjármálaáætlun sem fjármagnaði aðgerðaráætlunina miðað við kostnaðarmat stjórnvalda, því einhverra hluta vegna gerði stjórnarmeirihlutinn það ekki.

Tillögu Pírata var hafnað með atkvæðum allra stjórnarþingmanna sem voru viðstaddir. Miðflokkurinn og Viðreisn sátu hjá. Píratar, Flokkur fólksins og Samfylkingin sögðu já.

Stoppum aðeins hérna og hugsum um hvað gerðist. Ríkisstjórnin leggur fram aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum sem kostar 3,2 milljarða þann 15. mars síðastliðinn. Fjármálaáætlun er lögð fram tveimur vikum seinna, án fjármagns. Aðgerðaráætlunin er samþykkt 31. maí. Fjármálaáætlun er afgreidd úr fjárlaganefnd 6. júní, enn án fjármagns fyrir aðgerðaráætlun. Ríkisstjórnin segir annars vegar að “þetta ætlum við að gera í geðheilbrigðismálum” og hins vegar “við ætlum ekki að fjármagna þessi loforð okkar um aðgerðir í geðheilbrigðismálum”. Hvaða firring er í gangi?

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem stjórnarmeirihlutinn leggur fram aðgerðaáætlun, án þess að fjármagna hana. Nýlegt dæmi er aðgerðaáætlun heilbrigðisráðherra til að fækka sjalfsvígum, sem ítrekað hefur verið bent á að sé vanfjármögnuð. Það er ekki nóg að setja fram fleiri aðgerðaáætlanir, enn án fjármögnunar, og búast við betri niðurstöðu.

Þetta er ekki heiðarleg framkoma gagnvart þeim viðkvæma hóp sem þarf á þessum aðgerðum að halda. Mörg þeirra sem glíma við andleg veikindi geta einfaldlega ekki beðið lengur. Þau þurfa fullfjármagnaðar aðgerðir. Strax. Stjórnvöld verða að fylgja orðum með aðgerðum.

Úr aðgerðaáætluninni:
“Bætt geðheilbrigði grunnskólabarna” - nei.
“Betri geðheilsa framhaldsskólanema og minna brottfall úr framhaldsskólum” - nei.
“Að sjálfsvígum fækki” - Ríkisstjórnin segir nei.