Efnisyfirlit

Sanngjarn skattur?

   3. júní 2023     2 mín lestur

Hvað er fjármagnstekjuskattur? Er það sanngjarn skattur? Einfalda svarið er að fjármagnstekjuskattur er skattur sem er innheimtur af hluta tekna þeirra sem þéna mest. Fólk sem lifir af fjármagnstekjum greiðir í heldur ekki útsvar til sveitarfélaga. Semsagt, ekki sanngjarn skattur fyrir alla aðra sem borga nú þegar hærra hlutfall í skatt og útsvar af öllum tekjum sínum.

Einhverra hluta vegna þá losna sumir einstaklingar við að borga jafn mikinn skatt og aðrir af því að þau geta flokkað hluta af tekjum sínum sem “fjármagns” tekjur í staðinn fyrir “launa” tekjur. Af þessum fjármagnstekjum greiða þau svo 22% skatt en ekki hefðbundinn tekjuskatt eins og allir aðrir.

Mótrökin við því eru að segja að það sé þegar búið að borga 20% tekjuskatt lögaðila af því fjármagni sem er svo greitt út sem arður. Heildarskattheimtan af því fjármagni sé því 37,6%. Þetta er auðvitað blekking því það er alþekkt að fólk skammti sér lægri laun í gegnum fyrirtæki til þess að borga sér arð í staðinn, sem fer þá fram hjá tekjuskatti og útsvari.

Fjármagnstekjuskattur er því glufa í skattkerfinu fyrir fólk sem getur notfært sér til þess að borga lægri skatta en venjulegt launafólk. Flestir borga stærra hlutfall til samneyslunnar og útsvar til sveitarfélaga, sem fjármagnar skóla, leikskóla og félagsþjónustu. Fjármagnstekjur eru ekki notaðar til þess að borga fyrir þessa þjónustu.

Fyrir flesta sem eru með einhverjar smá fjármagnstekjur vegna vaxta af sparnaðinum sínum eða einhverju öðru smáræði, þá skiptir þetta í raun litlu máli. Flestir greiða ekki slíkan fjármagnstekjuskatt þar sem þeir eru með 300 þúsund króna persónuafslátt fyrir fjármagnstekjur á ári. Almennt séð eru það því aðallega einstaklingar í efstu tekjutíundinni sem greiða fjármagnstekjuskatt, eða um 85%. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Í tilfelli lífeyrisþega þá skiptast fjármagnstekjur til helminga milli hjóna við útreikning lífeyris. Það er að vissu leyti jákvætt, því þá er hægt að samnýta frítekjumörk þannig að það sé líklegra að þau séu fullnýtt. Á sama hátt og hjón eða sambúðaraðilar geta samnýtt persónuafslátt hvors annars vegna launatekna. Það sem verra er, ef fjármagnstekjur maka eru þeim mun meiri þá þurrka þær upp lífeyrisgreiðslur TR, þrátt fyrir að ekki sé um tekjur þess einstaklings að ræða.

Ef maki er með launatekjur, þá hafa þær ekki áhrif á lífeyrisgreiðslur lífeyrisþega. Ef maki er hins vegar með fjármagnstekjur éta þær upp lífeyrisgreiðslur hins aðilans í hjónabandinu. Lausnin við þessu öllu er auðvitað að hætta að flokka einhvern hluta tekna einstaklinga sem einhvers konar fjármagnstekjur. Tekjur eru tekjur. Einföldum skattkerfið.