Efnisyfirlit

Til hvers?

   26. apríl 2023     2 mín lestur

Spurningin er einföld. Til hvers er þessi ríkisstjórn? Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki svarið við þessari spurningu þó ég hafi ýmsar tilgátur. En mér finnst spurningin mikilvæg af því að við eigum alltaf að vita hvað fólkið með völdin er að gera. Til hvers þarf þetta fólk að hafa völd?

Það er ekki til þess að stunda lýðræði. Það var mjög augljóst eftir síðustu kosningar og það sem gerðist í Borgarnesi. Það er mjög augljóst þar sem ríkisstjórnin situr enn á niðurstöðum heillar þjóðaratkvæðagreiðslu. Og þó það sé ekki beinlínis á herðum þessarar ríkisstjórnar, þá var lofað atkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við ESB. Báðir flokkarnir sem brutu það loforð á sínum tíma sitja einnig núna í ríkisstjórn.

Ríkisstjórnin þarf augljóslega ekki á völdum að halda til þess að leysa húsnæðisvandann. Augljóslega, af því að vandinn er ekki nýr og hann er enn til staðar og tilraunir ríkisstjórnarinnar til þess að leysa vandann hafa verið mjög öfugsnúnar - aðallega hjálpað fólki að kaupa í staðinn fyrir að tryggja framboð. Þegar vandinn er skortur þá hellir ríkisstjórnin bara olíu á eldinn með því að hjálpa fólki að kaupa.

Ríkisstjórnin þarf ekki völd til þess að leysa vandann í heilbrigðiskerfinu. Þau kenna mönnunarvanda um og segja hann vera vanda víða um heim. Samt er staðan sú að mjög margt heilbrigðisstarfsfólk hefur skiljanlega leitað til annara starfa vegna álags og lágra launa. Fólkið er til staðar, kaup og kjör eru hins vegar óásættanleg. Það er ekki mönnunarvandi, það er stjórnarvandi.

Svo eru það ekki bara stóru málin. Það eru líka öll hin málin. Hvalveiðarnar (í alvörunni, til hvers í ósköpunum?), Lindarhvoll, salan á Íslandsbanka til vildarvina og ættingja, auðlindamálin, vopnvæðing lögreglunnar, …

168 þingmál stjórnarandstöðunnar sitja föst í nefndum ríkisstjórnarinnar. Þau eru auðvitað misgóð, eins og gengur og gerist, en þau eru öll föst. Meira að segja einfalt mál eins og að breyta lögum þannig að hægt sé að halda alþjóðleg bogfimimót ungmenna. Í alvörunni, núverandi lög koma í veg fyrir að það sé hægt.

Þegar ríkisstjórnin getur hvorki leyst stóru málin né minni og einfaldari mál, þá verðum við að spyrja okkur: til hvers er þessi ríkisstjórn? Svo ég vitni til umsagnar Sambands sveitarfélaga um fjármálaáætlun vegna fjármögnunar húsnæðismála: “Hér er um að ræða fullkominn forsendubrest.” Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir 18 ma.kr. í húsnæðisstuðning og 20 ma.kr. í veitt lán en sambandið bendir á að til þess að standa við skuldbindingar þurfi upphæðirnar að vera 44 ma.kr. í húsnæðisstuðning og 188 ma.kr. í lánveitingar. Einfaldlega: “Þessi áform um fjármögnun húsnæðismála munu auðvitað ekki standa.” Ef ekki, til hvers er þessi ríkisstjórn þá?