Virkar lýðræðið?
Flest mætum við reglulega í kjörklefann og setjum kross við einn flokk eða annan. Í einhverjum tilfellum setjum við kross eða tölu við nafn á einhverjum einstaklingi. X fyrir framan P eða C eða S eða B eða hvaða annan bókstaf sem við teljum að muni leiða til betra samfélags. Af hverju er þá heilbrigðiskerfið ekki eins gott og við viljum? Af hverju erum við enn með kvótakerfið eins og það er þrátt fyrir andstöðu mikils meirihluta landsmanna? Af hverju er þá ekki búið að leysa húsnæðisvandann og verðbólguna og … ?
Ætti ekki að vera búið að leysa öll þessi vandamál ef lýðræði virkar? Þó þetta sé gölluð spurning, af því að öll önnur stjórnkerfi sem við höfum prófað eru verri, þá hljótum við samt að þurfa að svara þessari spurningu einhvern vegin.
Prófum annað dæmi. Árið 2012 var þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem aukinn meirihluti sagði “já” við spurningunni “Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?” Rúmlega 10 árum seinna hafa lýðræðislega kjörin stjórnvöld ekki enn klárað að framfylgja niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ef lýðræðisleg þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki tilætluð áhrif, hvað segir það um lýðræðið? Ef lýðræðislegar alþingiskosningar færa okkur ekki stjórnvöld sem geta hvorki leyst þau samfélagslegu vandamál sem blasa við okkur né framfylgt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu - erum við þá með lýðræði eða virkar lýðræðið ekki?
Enn frekar, hvað með síðustu alþingiskosningar þegar mistalning atkvæða og vafasöm meðhöndlun kjörgagna leiddi til breytinga á niðurstöðum kosninga? Við vitum það fyrir víst að opinberar atkvæðatölur í NV-kjördæmi eru rangar. Líklega ekki það rangar að það breyti niðurstöðum núverandi niðurstöðu kosninganna en við höfum enn enga hugmynd um hvort það hafi verið raunveruleg niðurstaða miðað við atkvæðin sem kjósendur settu í kjörkassana.
Að lokum þá þurfum við alvarlega að íhuga það hvers vegna við erum ekki með jafnt vægi atkvæða. Í síðustu kosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn einu fleiri þingmann en fjöldi atkvæða gaf tilefni til og Framsóknarflokkurinn fékk tveimur þingmönnum of mikið - á kostnað Sósíalistaflokksins sem hefði átt að fá þrjá þingmenn.
Lýðræðið virkar ekki ef atkvæðin eru ekki talin rétt. Lýðræðið virkar ekki ef það er ekki jafnt vægi atkvæða. Lýðræðið virkar ekki ef niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu eru hunsaðar. Lýðræðið virkar ekki ef við við þurfum alltaf að glíma við sömu samfélagslegu vandamálin ár eftir ár.
Hvað getum við þá gert? Lausnin er í rauninni mjög einföld. Meira lýðræði. Meiri ábyrgð. Meira gagnsæi. Meiri kröfur til kjörinna fulltrúa. En þó lausnin sé einföld er hún erfið í framkvæmd. Lýðræði er flókið og þarfnast alúðar. Reynum að gera betur.