Efnisyfirlit

Þögn. Myrkur. Þögn

   26. apríl 2023     2 mín lestur

Aðfararnótt 30. júní fyrir rétt tæplega þremur árum var atkvæðagreiðsla á Alþingi um frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta vímuefna. Frumvarpinu var hafnað með 28 atkvæðum ríkisstjórnarflokkanna og Miðflokksins. Nokkrir stjórnarþingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu þá nóttina með eftirfarandi orðum.

Þórunn Egilsdóttir: “Þingflokkur Framsóknar styður hugmyndina um afglæpavæðingu neyslu vímuefna […] Við getum verið sammála um að refsistefna sem hér hefur ríkt virkar ekki sem skyldi. Því þurfum við að fara aðrar leiðir.”

Ólafur Þór Gunnarsson: “Það er mikilvægt að hverfa af braut refsinga og leggja áherslu á stuðning, forvarnir og meðferð. […] Ég ítreka að við munum halda áfram að vinna í samræmi við stjórnarsáttmálann og draga úr refsingum vegna neyslu og efla meðferðarúrræði.”

Páll Magnússon: “Markmiðið er göfugt og tilgangurinn er góður”

Vilhjálmur Árnason: “Ég fagna þeirri umræðu sem á sér stað um það mikilvæga markmið sem þetta frumvarp fjallar um, sem við erum flest hér inni sammála. […] Ég tel að við þurfum að fara réttu leiðina og við þurfum að finna bestu leiðina til þess að ná þessu mikilvæga markmiði.”

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra: “Ég er hjartanlega sammála flutningsmönnum frumvarpsins um að núverandi kerfi hefur gengið sér til húðar og rétt er að nálgast fíkniefnavandann frekar sem heilbrigðisvandamál. […] Ég mun halda áfram þeirri vinnu sem snýr að mér í dómsmálaráðuneytinu og ég þori að gera það.”

Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekkert gert á þessum þremur árum nema þvæla málinu fram og til baka í einhverjum starfshópum. Aðgerðirnar eru engar.

Í færslu á Instagram vekur Bubbi Morthens athygli á því að á einu ári hafi hann sungið yfir 11 einstaklingum sem hafa fallið frá vegna fíknisjúkdóms. Allir allt of ungir. Hann segir að ef þetta hefðu verið einstaklingar sem hefðu látist í náttúruhamförum væru búið að bregðast við nú þegar en þögnin frá yfirvöldum sé alger.

Við þurfum aðgerðir í þessum málaflokki. Við þurfum varnargarðana, smitvarnirnar og björgunarþyrlurnar til þess að bjarga lífum fólks sem lendir í fíkn. Varnargarðar fíknisjúkdómsins eru forvarnirnar. Smitvarnirnar eru að nálgast vandann sem heilbrigðismál en ekki lögreglumál. Björgunarþyrlurnar eru hetjurnar okkar í heilbrigðiskerfinu sem þurfa svo sannarlega stuðning okkar til þess að geta sinnt þessu mikilvæga og erfiða verkefni.

Við vitum öll að það er ekki til nein töfralausn. Það er ekkert hægt að veifa hendi og afglæpavæða og þá lagast allt. Það tekur tíma að byggja upp og nálgast vandann með því að vernda fólk en ekki með því að refsa því - en það er nauðsynlegt að byrja sem fyrst því refsingin drepur.