Að selja björgun
Í upphafi árs datt dómsmálaráðherra allt í einu í hug að það væri hægt að leysa fjárhagsvanda Landhelgisgæslunnar með því að selja einu flugvélina sem getur sinnt hinum ýmsu sérhæfðu verkefnum sem flugvélin var keypt til þess að sinna. Flugvélin var keypt árið 2009 og árið 2017 var staðan sú að vélin var aðgengileg í 57% tilfella innan 6 klst. Það er að segja, ef það kom eitthvað upp á þar sem kalla þyrfti til flugvélina þá var það einungis hægt innan 6 klst. í 57% tilfella.
Ríkisstjórnin setti sér því markmið um að hér þyrfti að gera betur. Í fjármálaáætlun 2018 var markmiðið sett um að flugvélin yrði tiltæk í 95% tilfella innan 6 klst. árið 2022. Kannski er það eðlilegt að þegar það er bara ein flugvél þá komi upp tilfelli þar sem ekki sé alltaf hægt að bregðast við innan 6 klst, þannig að 95% viðbragðsgeta er kannski bara raunhæft.
En hvað gerðist? Árið 2019 var flugvélin einungis aðgengileg í 20% tilfella innan 6 klst og árið 2021 var hlutfallið komið niður í 8,5%. Í síðustu fjármálaáætlun var einungis gert ráð fyrir að flugvélin yrði aðgengileg í 25 - 30% tilvika á þessu ári. En niðurstaðan varð að það átti að reyna að selja flugvélina.
Eftir allt þetta rugl er hins vegar komin út ný fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Það er því mjög spennandi að kíkja í nýju áætlunina, eftir að hætt var við að selja TF-SIF, og sjá hvernig þessi mál eiga að þróast á næstu árum.
En einhverra hluta vegna vantar þessar upplýsingar í fjármálaáætlunina. Í fyrri fjármálaáætlunum hefur markmiðið um “björgunarþjónusta með flugvél innan leitar- og björgunarsvæðis” alltaf verið til staðar en í nýjustu áætluninni er bara búið að taka þetta markmið út. Hver er staðan árið 2022 - sem átti að fara úr 8,5% árið 2021 í 25-30% árið 2023? Hver er framtíðarhugsunin?
Ráðuneytið hefur svarað því, óljóst, að það verði nú hægt að nýta fleiri og smærri vélar í hin ýmsu verkefni. Það á samt ekki að þurfa að fjarlægja markmiðið um að björgunarþjónusta með flugvél verði aðgengileg innan 6 klst. í 95% tilfella. Það er hægt að ná því markmiði á annan hátt, vissulega. Það hafa verið nefndar áætlanir um notkun dróna eða smærri, sérhæfðari, flugvéla, sem er kannski gott og blessað. Kannski er hægt að sinna þeirri þjónustu sem ætlast er að TF-SIF geti sinnt í dag með öðrum leiðum en það þarf að sinna þessari þjónustu. Það þarf að gera grein fyrir því hversu vel á að sinna þessari þjónustu - ekki bara stroka þau markmið út úr áætluninni.
En þessi ríkisstjórn er kannski komin á þann stað að það sé ekki hægt að svindla á settum markmiðum ef þau sleppa bara að setja sér markmið um þjónustu sem við erum skuldbundin til þess að sinna. Björgunarþjónustu þar sem líf eru í húfi.