Efnisyfirlit

Stuð. Stuð. Stuð.

   27. mars 2023     2 mín lestur

Hver man eftir því þegar lögreglan gekk inn í hóp mótmælenda með piparúða og kylfum til þess að dreifa mótmælendum? 10 voru handteknir og 4 voru fluttir á sjúkrahús, þar af einn lögegluþjónn. Það var kannski hvað minnisstæðast hvernig tveir lögregluþjónar gengu inn í hóp mótmælenda öskrandi “Gas, gas, gas” á sama tíma og piparúða var sprautað yfir mótmælendur.

Í frétt stöðvar 2 sést hvernig nokkrir lögregluþjónar halda niðri mótmælendum að handjárna þá. Einn þeirra er beðinn um að róa sig - en hann svarar að hann geti það ekki. Hann segir svo skýrt heyrist “ég er að kafna maður. Ég er að kafna.” og “vertu bara rólegur, slakaðu á” er svarað andstutt með “ég get það ekki”.

Í umræðum um rafbyssuvæðingu lögreglunnar hefur ítrekað verið sagt að rafbyssur séu milliskref í valdbeitingartækjum lögreglunnar, að þær séu þá vægara úrræði en skotvopn. Það kemur hins vegar skýrt fram í reglugerð ráðherra að þegar heimilt er að nota kylfu eða úða þá sé heimilt að beita rafbyssu. Með öðrum orðum hefði ekki verið ólíklegt að rafbyssum hefði verið beitt gegn vörubílstjórunum sem mótmæltu á Suðurlandsvegi hér um árið. Vörubílstjórinn hefði kannski ekki verið að kafna heldur verið í stuði.

Margrét Valdimarsdóttir, dósent í afbrotafræði við Háskóla Íslands sagði fyrr á árinu að fullyrðingar dómsmálaráðherra um aukið öryggi lögregluþjóna sem eru vopnaðir rafbyssum ættu ekki við rök að styðjast. Helstu rannsóknir, samkvæmt Margréti, í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð sýna mjög litla fækkun slysa á lögreglumönnum.

Í rannsókn frá árinu 2018 kemur mjög skýrt fram að lögregluþjónar með rafbyssur notuðu valdbeitingartæki 48% oftar og voru líklegri til þess að lenda í átökum en lögregluþjónar sem voru ekki vopnaðir rafbyssum.

Ef það á að rafbyssuvæða lögregluna þá þarf að vera skýrt af hverju er verið að gera það. Ef það er til þess að fækka slysum á lögregluþjónum þá þurfum við að geta nálgast áreiðanleg gögn um það - en á sama tíma þurfum við líka gögn um hversu oft lögreglan beitir valdi í störfum sínum. Ef rafbyssuvæðing leiðir til aukinnar valdbeitingar þá verðum við að spyrja okkur hvort það sé réttlætanlegt - hvort það sé nauðsynlegt. Til þess að geta svarað slíkum spurningum þá þarf fyrst að ræða það ítarlega hvort, og þá á hvaða forsendum á að rafbyssuvæða lögregluna. Það fáum við ekki að gera því dómsmálaráðherra ætlar bara að troða þessari vopnvæðingu í gegn, sama hvað.

Eða eins og umboðsmaður orðaði það: “framganga dómsmálaráðherra hafi verið ósamrýmanleg þeim kröfum sem gera verður til ráðherra m.t.t. vandaðra stjórnsýsluhátta”