Efnisyfirlit

Heilbrigðiskerfi fyrir hverja?

   8. mars 2023     2 mín lestur

Samkvæmt Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga hættir fjórði hver hjúkrunarfræðingur störfum innan fimm ára og er ein helsta ástæðan launakjörin. Starfsumhverfið er einnig óásættanlegt, t.d. vegna álagsins sem felst í því hversu fáir eru á vakt hverju sinni. Það eru fáar hendur að sinna mörgum mikilvægum störfum.

Þetta er staðan í heilbrigðiskerfinu í dag. Stjórnvöld hafa sent hjúkrunarfræðinga tvisvar sinnum í röð í gerðardóm sem úrskurðaði að „að mati gerðardóms [eru] vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar“. Gerðardómur hækkaði þó ekki laun með tilliti til þeirrar niðurstöðu heldur varpaði þeirri ábyrgð yfir á stjórnvöld.

Fjármálaráðherra hefur sagt oftar en einu sinni að fjárveitingar séu ekki vandi heilbrigðiskerfisins. Samt eru laun hjúkrunarfræðinga ekki í samræmi við menntun og ábyrgð sem er ein helsta ástæða þess að hjúkrunarfræðingar hætta störfum. Þetta er mjög undarleg staða í ljósi þess að í orði segjast flestir vilja að starfsstéttir grunninnviða, eins og hjúkrunarfræðingar eru, séu vel launaðar.

Þess ber að auðvitað að geta að þó hér sé tekið dæmi um stöðu hjúkrunarfræðinga þá má auðveldlega draga upp sömu mynd hjá öðrum heilbrigðisstéttum.

Hvað á þá að gera ef stjórnvöld viðurkenna vandann en neita að viðurkenna að það sé launaliðurinn sem sé vandinn - þrátt fyrir úrskurð gerðardóms? Þegar ég spurði fjármálaráðherra um vanda hjúkrunarfræðinga í síðustu viku brást hann illa við og ýjaði að því að ef hjúkrunarfræðingar myndu þurfa að fá eitthvað aukalega þá myndi það bitna á sjúkraliðum, læknum eða kennurum. Þar sagði ráðherra beinum orðum: “til þess að skapa það svigrúm þá þurfum við að semja um minna fyrir aðra”

Hér er verið að etja einum hóp upp á móti öðrum. Að hjúkrunarfræðingar verði að rífast um þá kökubita sem falla af disknum eftir að aðrir eru búnir að skipta sneiðunum sín á milli. Hér er um algjört ábyrgðarleysi að ræða eins og svo oft áður hjá fjármálaráðherra - sem ber ábyrgð á launa- og kjaramálum starfsmanna ríkisins. Þetta er ráðherrann sem ákveður svigrúmið og segir að það sé ekki nóg.

Til þess að leysa þennan vanda hef ég lagt fram tillögu til þingsályktunar á þingi um sáttmála um laun kjörinna fulltrúa, starfsstétta grunninnviða og lágmarksframfærslu. Það er nefnilega grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi að slík sátt ríki, um hver sé lágmarksframfærsla, um laun kjörinna fulltrúa og allra helst um laun þeirra starfsstétta sem sinna grunninnviðaverkefnum. Allt of oft er framlag þeirra stétta vanmetið að verðleikum. Við verðum fyrst að hlúa að grundvallaratriðunum, allt annað hlýtur að þurfa að miða við það. Ekki forstjórar fyrst heldur fólk fyrst.