Efnisyfirlit

Kurteisisleg blótsyrði

   27. febrúar 2023     2 mín lestur

Á sama tíma og fólk er skammað fyrir að nota ókurteis orð er verið að dæla dæla peningum í “kurteisislega” orðaðan áróður. Heimildin hefur upplýst að Norðurál fjármagnaði áróður gegn Landsvirkjun og lét það líta út eins og að grasrótarsamtök væru að verjast óhóflegri gjaldtöku Landsvirkjunar sem myndi leiða það af sér að stóriðjufyrirtæki neyddust til að loka. Tilgangurinn var að reyna að hafa áhrif á verð Landsvirkjunnar til stóriðjunnar - sem myndi vera skaðlegt fyrir okkur öll.

Þessi gagnrýni leiddi til þess að skoða þurfti samkeppnishæfni Íslands í stóriðju með tilliti til raforkuverðs sem leiddi fram þá niðurstöðu að “raforkukostnaður stóriðju á Íslandi skerðir almennt ekki samkeppnishæfni hennar gagnvart samanburðarlöndunum.” Þar kom til dæmis fram að raforkukostnaður gagnavera væri um þrisvar sinnum lægri en í Þýskalandi (árið 2019). Raforkukostnaður álvera væri almennt samkeppnishæfur við Kanada og Noreg og lægri en í Þýskalandi.

Það er alvarlegt þegar peningaöflin beita valdi sínu til þess að hafa áhrif á umræðuna, ekki með rökum heldur með fjármöguðum áróðri. Þar má einfaldlega segja að verið sé að ljúga að þjóðinni með peninga að vopni og einhverra hluta vegna virðist það vera alvarlegra þegar blótsyrði eru notuð.

Ég er ekki fylgjandi þess að nota blótsyrði, en ég gríp til þeirra af innlifun þegar mér er misboðið. Það lýsir því hversu innilega mér er misboðið - og ég held meira að segja í mér líka, af því að það þarf að nýta slík orð sparlega eða að maður dettur í “úlfur, úlfur” gildruna, að kvarta svo oft að fólk hættir að taka mark á manni. Nóg er af ástæðum til þess að kvarta líka, því miður. Þannig að við endum flest á því að láta það allt bara vaða yfir okkur án þess að reyna að sporna við því.

En peningafólkið getur haldið áfram að dæla út “kurteisislega” áróðrinum sínum svo lengi sem þau eiga peninga, og þau eiga milljarða á milljarða ofan. Samherji átti fjöldann allan af milljörðum sem uppljóstranir benda til þess að hafa verið varðir með mútum. Norðurál er núna í svipuðum vanda, en áður hefur verið ljóstrað upp um að stæsti eigandi Norðuráls, Glencore, hafi stundað svipaða áróðursstarfsemi í Ástralíu.

En einhverra hluta vegna sé ég móðgunargjarna fólkið sem krossar sig fram og til baka yfir blótsyrðum ekki fordæma fjárhagslega drifinn áróður. Sá áróður er bókstaflega hættulegur lýðræðinu. Blótsyrði eru bara einkenni þess að fólki misbýður á meðan fjármagnaður áróður, svo við notum kurteisislegu orðin hérna, er miklu verri. Þá er bókstaflega verið að reyna að misbjóða fólki án þess að það átti sig á því.