Efnisyfirlit

Vitum við hvað öryggi kostar?

   17. febrúar 2023     2 mín lestur

Það gerðist dálítið mjög merkilegt um daginn. Við fengum sjaldgæfa innsýn í innra starf ráðuneyta og stofnanna þegar ráðherra uppljóstraði um svo mikinn niðurskurð hjá Landhelgisgæslunni að hann ætlaði að selja flugvél Gæslunnar til þess að koma til móts við fjárhagsörðugleika. En hefði í alvörunni þurft að selja TF-SIF?

Við komumst að því að Landhelgisgæslan hafði óskað eftir að fá milljarð aukalega, en hafi svo bara fengið 600 milljónir. Ráðherra montaði sig meira að segja af því í fjölmiðlum þar sem hann sagði: “auk­in fram­lög til Land­helg­is­gæsl­unn­ar, sem þýðir að við get­um staðið und­ir kröf­um um viðbragð og björg­un­ar­getu Gæsl­unn­ar.”

Orð ráðherra eru ekki rétt því jafnvel þó Gæslan fái 400 milljónir aukalega og þurfi ekki að selja TF-SIF eru kröfurnar um viðbragð langt frá því að vera uppfylltar. Samkvæmt fjármálaáætlun 2019 átti björgunarþjónusta með flugvél að vera aðgengileg í 95% tilfella innan 6 klst árið 2023. Árið 2017 var flugvélin aðgengileg í 57% tilfella innan 6 klst.. Staðan var komin niður í 20% árið 2019 og var orðin 8,5% árið 2021. Á þessu ári á flugvélin að vera aðgengileg í 25 - 30% tilfella innan 6 klst, en lendir svo í niðurskurðarhnífnum.

Einhverra hluta vegna þá segir ríkisstjórnin okkur eitt, en gerir svo allt annað. Það er ekki einu sinni innan skekkjumarka. 95% þjónusta innan 6 klst. varð einhvern vegin að tillögu um að selja TF-SIF.

En hver ber ábyrgð á þessu? Það er mjög algengt að fjármálaráðherra sé kennt um allt svona en málið er flóknara. Ríkisstjórnin samþykkir hversu miklir peningar fara í hvert málefnasvið. Það er ákveðið að í málefnasvið almanna- og réttaröryggis skulu fara 35 milljarðar. Dugar það til þess að sinna lögbundnum verkefnum og til að framfylgja þeim kröfum sem settar eru á stofnanir? Nei, svo virðist ekki vera. Eru kröfurnar þá of háar? Það væri skrítið því það er sama ríkisstjórn sem leggur þessar kröfur fram til samþykktar hjá Alþingi.

Hérna er semsagt ríkisstjórn sem gerir kröfur upp á 95% viðbragðsgetu en fjármagnar 0% viðbragðsgetu. En það þýðir bara að það sé verið að ljúga að okkur um hvað eigi að gera. Það er búið að samþykkja alls konar lög um alls konar réttindi og þjónustu, en svo gerist bara ekkert af því að það kemur aldrei fjármagn. Af hverju kemur ekkert fjármagn? Hver segir í raun og veru “nei” þegar allt kemur til alls? Hver bar ábyrgð á því að minnka fjárheimildir Gæslunnar um 400 milljónir? Langa svarið er að það var ríkisstjórnin sem ákvað heildarfjárheimildirnar en það var dómsmálaráðherra sem ákvað að niðurskurðurinn ætti að bitna á TF-SIF. Var það viljandi eða hefði verið hægt að skera niður annarsstaðar innan málefnasviðsins? Við fáum ekki að vita það.