Efnisyfirlit

Blindur leiðir haltan

   17. mars 2023     2 mín lestur

Hið öfugsnúna orðatiltæki, að blindur leiði haltan, lýsir ríkisstjórnarsamstarfinu í dag ansi vel. Það er sama hvar er litið. Í útlendingamálinu sjá þau ekki allar umsagnirnar sem vara við stjórnarskrár- og mannréttindabrotum. Í Íslandsbankamálinu sáu þau ekki að fjármálaráðherra var að selja föður sínum hlut í bankanum. Í Lindarhvolsmálinu sjá þau ekki óháð og ítarlegt lögfræðiálit sem segir að þeim sé skylt að birta greinargerð setts ríkisendurskoðanda. Það er sérstaklega undarlegt því það er meira að segja búið að birta lögfræðiálitið á vefsíðu Lindarhvols þar sem allir geta lesið að “skylt sé […] að veita almenningi aðgang að skýrslu setts ríkisendurskoðanda” og að ekki verði séð “að greinargerðin hafi að geyma upplýsingar af því tagi sem heimilt er […] að takmarka aðgang að.”

Það á semsagt að birta skýrsluna og ekki eyða út neinu í henni fyrir birtingu.

En ríkisstjórnin fer undan í flæmingi. Allt nefndarfólk í forsætisnefnd vill birta greinargerðina, nema forseti þingsins. Samt segja þau svo í þingsal að þeim sé bannað að birta greinargerðina samkvæmt lögum - og vísa þá í niðurstöður úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem komst að þeirri niðurstöðu að ríkisendurskoðanda bæri ekki að birta greinargerðina. Þetta er klassísk afvegaleiðing því skjalið sem um ræðir er hjá Alþingi. Þetta kemur líka skýrt fram í lögfræðiálitinu að greinargerðin væri send ríksendurskoðanda “ásamt öllum vinnugögnum”. Greinargerð setts ríkisendurskoðanda var svo einnig send til fjármála- og efnahagsráðherra, Lindarhvols, Seðlabanka Íslands og umboðsmanns Alþingis. Ekki með vinnugögnum.

Settur ríkisendurskoðandi kláraði ekki skýrsluna heldur skrifaði greinargerð um þau þrjú ár sem hann rannsakaði málið og skilaði þeirri greinargerð um sína vinnu til Alþingis. Þetta er algerlega skýrt í lögum um ríkisendurskoðanda: “Skýrslur, greinargerðir og önnur gögn sem ríkisendurskoðandi hefur útbúið og eru hluti af máli sem hann hyggst kynna Alþingi geta fyrst orðið aðgengileg þegar þingið hefur fengið þau afhent.”

Það er löngu búið að afhenda þinginu þessa greinargerð og það er líka löngu búið að segja að þinginu sé skylt að birta greinargerðina. Hvers vegna ríkisstjórnin endurtekur bara sömu möntruna um að þeim sé bannað með lögum að birta upplýsingarnar eru ótrúlegt, sérstaklega miðað við að jafnvel þó að greinargerðin teldist vinnugagn sem þyrfti ekki að birta þá væri ekkert sem bókstaflega bannaði það. Útúrsnúningurinn er því algjör, eins og venjulega.

Það er því spurning hversu lengi þetta samfélag getur gengið á því að Sjálfstæðisflokkurinn leiði Vinstri Græn á meðan Framsókn horfir bara á? Þangað til það er búið að klára að selja Íslandsbanka? Og Isavia? Hvað fá þau í staðinn?