Efnisyfirlit

Lagabrotastarfsemi

   8. febrúar 2023     2 mín lestur

Í frétt mbl.is frá 18. janúar í fyrra er greint frá því hvernig eftirlitsstofnun EFTA taldi íslenska ríkið brotlegt við átta greinar EES-samningsins “um mat á um­hverf­isáhrif­um þegar það breytti lög­um um fisk­eldi í októ­ber 2018.” Niðurstaðan kom í kjölfar bráðabirgðaniðurstöðu frá árinu 2020 sem íslensk stjórnvöld virðast hafa hunsað algerlega og tróðu í gegn lögum á einum degi til þess að “redda málum”.

Nú er komin út kolsvört skýrsla ríkisendurskoðunar um “veikburða og brotakennda” stjórnsýslu og eftirlit með sjókvíaeldi þar sem raktar eru 23 ábendingar ríkisendurskoðunar um hinar ýmsu brotalamir. Margar af ábendingunum snúast einmitt um leyfisveitingu, sem brotamálin gegn EES snerust einmitt um.

Þetta eru þó ekki einstök vandræði, einhver útlagi í eyðimörkinni, heldur virðist þetta gerast aftur og aftur í ýmsum málaflokkum. Leiðréttingin á lögum um almannatryggingar kostaði milljarða þegar stjórnvöld reyndu að skerða réttindi fólks afturvirkt. Landsréttarmálið hefur enn áhrif á úrlausn dóma, og ekki bara þá dóma sem ranglega skipaðir dómarar voru að vinna með, heldur jók málið álag fyrir alla aðra sem enn er verið að vinna úr. Allir þurfa því að bíða lengur eftir réttlæti.

Þetta eru réttlætismál. Það má ekki hunsa mat á umhverfisáhrifum. Það má ekki refsa fólki afturvirkt. Réttur fólks til þess að sækja réttar síns fyrir óvilhöllum dómstólum verður að vera tryggður. Öll málin varða mannréttindasáttmála Evrópu á einn eða annan hátt. Lögin sem voru sett um fiskeldi útilokuðu til dæmis að hægt væri að kæra ákvörðun til óháðs aðila á við úrskurðarnefnd.

Enn eitt réttlætismálið sem þingið fæst nú við eru lög um útlendinga. Fjölmörg samtök hafa gert athugasemdir við að lögin stangist á við bæði mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands og við alþjóðlegar skuldbindingar í mannréttindamálum. Í umsögnunum er farið yfir brotalamir í framkvæmd núverandi laga og hvernig frumvarpið muni fyrirsjáanlega valda meiri flækju og að álitamálum gagnvart mannréttindum muni fjölga.

Það felst til dæmis réttindaskerðing í því að hafa takmarkaðri frest til þess að skila kæru og gögnum. Það er réttindaskerðing í því þegar fólk er svipt þjónustu. Það er réttindaskerðing í því að leyfa yfirvöldum að panta heilbrigðisvottorð. Það er réttindaskerðing í því að ekki sé tekið tillit til nýrra gagna á heildstæðan hátt. Það er réttindaskerðing í því að börn líði fyrir mistök umsjónarmanna sinna, skerðing sem gengur þvert á ákvæði barnasáttmálans eins og Rauði krossinn bendir á í umsögn sinni.

Stjórnvöld eiga að standa vörð um réttlætið, ekki að vega að því. Það á að vera sjálfsögð og þverpólitísk krafa – sama hvaða flokk sem við kjósum og sama hvað hugmyndafræði við aðhyllumst.