Efnisyfirlit

Forsætisráðherra gat ekki svarað ...

   30. janúar 2023     2 mín lestur

Í síðustu viku var haldið vetrarþing Evrópuráðsþingsins (Council of Europe), sem má ekki rugla saman við Leiðtogaráð Evrópusambandsins (European council). Í stuttu máli snýst Evrópuráðsþingið um mannréttindi, lýðræði og að með lögum skal land byggja - og undirstaða þessa þings er mannréttindasáttmáli Evrópu og mannréttindadómstóllinn. Þar er ýmislegt fleira að finna, baráttu gegn spillingu (GRECO), kosningaeftirlit, viðmið um velferð og réttindi fatlaðra, þolendur mansals og flóttamanna.

Á vetrarþinginu var fjallað um ýmis aðkallandi mál. Stríðið í Úkraínu var fyrirferðamikið í öllum umræðum en einnig umsókn Kosovo að Evrópuráðsþinginu og lokun Latchin vegarins á milli Armeníu og Nagorno-Karabakh. Það var mikill hiti í þingmönnum vegna þessara mála.

Einnig var talað um réttindi fólks, og sérstaklega barna, sem höfðu barist á vegum Daesh í Sýrlandi - en þar var jafnvel gengið svo langt að leggja til að taka mannréttindi af börnum fólks sem tók þátt í því stríði, nánar tiltekið að þau myndu fyrirgera sér rétt til fjölskyldulífs (e. forfeited their right to family life). Því var sem betur fer hafnað.

Þingið var líka merkilegt fyrir okkur Íslendinga af því að nú fer Ísland með formennsku í ráðherraráði þingsins og mætti því forsætisráðherra Íslands og hélt ræðu og svaraði spurningum. Ein af spurningunum sem forsætisráðherra fékk var, í lauslegri þýðingu: “þú vilt samþykkja lög á Íslandi sem sendir flóttafólk til landa sem hafa ekki undirritað flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna - af hverju ætlar þú að gera það?”

Forsætisráðherra gat hins vegar ekki svarað spurningunni, sem er mjög áhugavert. Nánar tiltekið virtist forsætisráðherra skilja spurninguna eins og verið væri að spyrja um sendingar flóttafólks til Grikklands. Spurningin er mikilvæg því það er miklu erfiðara að tryggja mannréttindavernd í þeim löndum sem ekki hafa fullgilt flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna heldur en í þeim löndum sem hafa fullgilt samninginn. Það krefst miklu meiri vinnu hjá íslenskum stjórnvöldum að tryggja að hverjum umsækjanda um vernd séu tryggð viðeigandi réttindi.

Það er því áhugavert að forsætisráðherra hafi ekki skilið spurninguna því þessi nýja grein í útlendingafrumvarpinu er mjög umdeild og eðlilegt hefði verið að ætla að forsætisráðherra hefði getað bæði skilið spurninguna og útskýrt hvers vegna verið sé að gera svona breytingar - en svo var ekki. Þá verðum við að spyrja okkur hvers vegna? Veit forsætisráðherra ekki af þessari breytingu og gat því ekki áttað sig á tilgangi spurningarinnar? Ég átta mig á því að það er erfitt að vita allt um öll mál - en miðað við að útlendingamálið var að fara á dagskrá fyrr í vikunni þá hefði forsætisráðherra átt að gera betur.