Efnisyfirlit

Skipun án auglýsingar

   20. janúar 2023     2 mín lestur

Í síðustu viku var enn einn embættismaður skipuður í stöðu án auglýsingar. Í samantekt forsætisráðuneytisins sem mbl.is fjallaði um í október á síðasta ári kemur fram að um 20% embættisskipanna á árunum 2009 - 2022 hafi verið án auglýsingar. Áður hafði þjóðminjavörður verið skipaður án auglýsingar, viðkomandi var víst sérstaklega hæf og uppfyllir öll skilyrði.

Nú er það vissulega svo að í lögum þá er gefið svigrúm til þess að færa fólk í starfi án auglýsingar - en umsagnir og álit um þær lagabreytingar gerðu ráð fyrir því að sambærilegt starf myndi þá verða laust á sama tíma sem myndi þá verða auglýst. Að eftir sem áður yrðu jafn margar stöður alltaf auglýstar. Á meðan þau rök hljóma skynsamlega þá verðum við að skoða hvernig heimildin er notuð. Í þessum tveimur nýlegu tilvikum þá er um að ræða stöðuhækkun. Það er strangt til tekið ekki verið að flytja fólk í starfi. Það er verið að veita fólki stöðuhækkun og auglýsingin sem kemur í kjölfarið er vegna öðruvísi starfs en þess sem hefði átt að auglýsa.

Fyrir síðustu kosningar mætti ég í kosningaumræðuþátt á Stöð 2 þar sem Heimir Már Pétursson spurði mig um orðróm að fólk annarsstaðar í stjórnmálunum hefði áhyggjur af því að vinna með Pírötum í meirihlutastarfi, af því að við hefðum svo mikil prinsipp. Að ef það kæmi upp eitthvað prinsippmál þá myndum við segja okkur úr ríkisstjórn bara eftir nokkra sólarhringa.

Þetta er mjög áhugaverð spurning, því stjórnmál hljóta að snúast um prinsipp. En við erum kannski orðin svo vön því að stjórmálamenn selji sálu sína á altari valdsins að við einfaldlega búumst ekki við neinum prinsippum. Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins orðaði þetta eftirminnilega í kjölfari hrunsins: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

En ég svaraði þessari spurningu einfaldlega „við erum bara að krefjast faglegra vinnubragða. Við sjáum pólitískar ráðningar sem við sættum okkur ekki við. Það eru nú ekki miklar kröfur að gera til stjórnmálanna, að vinna faglega. Okkur finnst það rosalega lágar kröfur. Sjálfsagðar kröfur.”

Nei. Píratar hlaupa ekki undan ábyrgð en við krefjumst ábyrgðar. Svona endurteknar stöðuhækkanir án auglýsingar eru ekki fagleg vinnubrögð. Við eigum að geta gert betur og þurfum að gera kröfu að stjórnmálamenn geri betur. Það ætti að hringja öllum viðvörunarbjöllum þegar stjórnmálaflokkar treysta sér ekki til samstarfs við flokk sem gerir bara einfaldar kröfur um fagleg vinnubrögð. Það er góð vísbending um að það er eitthvað mikið að í íslenskum stjórnmálum - „tækifærismennska, valdabarátta.”