Efnisyfirlit

Tölum um réttindi

   11. janúar 2023     2 mín lestur

Í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er einfaldlega sagt að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til: “kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti”. Þrátt fyrir þetta, mjög svo afdráttarlausa ákvæði, eru ýmis lagaákvæði sem má alveg segja að sé vafi að standist þessar kröfu stjórnarskrárinnar um jafnvægi.

Hver getur sagt af eða á um það? Dómstólar gera það vissulega. Það kom til dæmis dómur vegna afturvirkra skerðinga sem settar voru í lög 2017. Þau lög fóru í gegnum þingið þrátt fyrir aðvaranir Pírata um að þau stæðust ekki stjórnarskrá og svo fór að dómstólar staðfestu það mat.

Í því frumvarpi sem braut svona gegn stjórnarskránni var ekkert fjallað um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem venjan hefur verið að gera síðan 2017. En þó það sé venja að fjalla um samræmi við stjórnarskrá þá þýðir ekki að það sé gert á ítarlegan hátt í öllum frumvörpum, til að mynda í útlendingafrumvarpi dómsmálaráðherra þar sem einfaldlega er sagt: “Frumvarpið gefur ekki tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrá” og einnig “tekið tillit til þessara alþjóðlegu skuldbindinga Íslands”.

Þetta er áhugavert vegna þess að umsagnaraðilar gera mjög margar athugasemdir um frumvarp ráðherra um breytingar á lögum um útlendinga sem benda til þess að verið sé að brjóta á þessum rétti fólks. Athugasemdirnar eru of margar til þess að komast fyrir í svona stuttri grein en hæglegast er að vísa til umsagnar landlæknis “Af frumvarpinu verður ráðið að þrátt fyrir undanþáguákvæði geti komið upp sú staða að fólk verði svipt rétti til heilbrigðisþjónustu. SlÍkt er óásættanlegt.”

Það er ekki hægt annað en að taka svona ábendingum alvarlega og því bað þingflokkur Pírata um óháð mat á áhrifum frumvarpsins á stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar fyrst ráðuneytið gerði það ekki sjálft. Þeirri einföldu beiðni var hafnað og vísað í umfjöllun meiri hlutans á þessum álitaefnum. Ýmislegt vantar þó upp á rökstuðning nefndarinnar, til dæmis er ekkert fjallað um sjálfkrafa kærur og vísað í að einhver reglugerð tryggi mögulega neyðaraðstoð - eins og landlæknisembættið viti ekki af slíkri reglugerð.

Staðreyndin er sú að frumvarp dómsmálaráðherra mun ekki skila tilætluðum árangri og mögulega brjóta á réttindum fólks í ofanálag. Það er verið að búa til fleiri undanþágur sem kalla á meiri pappírsvinnu og draga úr skilvirkni. Réttindaskerðingar munu hafa þær afleiðingar að fleiri mál dragast á langinn þegar verið er að láta reyna á hvort þær standist stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Viljum við í alvörunni svoleiðis lög?