Efnisyfirlit

Biðin endalausa, 2023 útgáfan

   2. janúar 2023     2 mín lestur

„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra árið 2017. Þá í stjórnarandstöðu örstuttu áður en ríkisstjórnin sprakk út af upprreist æru málinu. Í kjölfar kosninganna hurfu Viðreisn og Björt framtíð úr ríkisstjórn og VG og Framsókn fóru inn í ríkisstjórn í staðinn. Flokkurinn sem var áhrifavaldurinn í uppreist æru málinu sat áfram sem fastast í ríkisstjórn. Á þeim fimm árum síðan þessi orð voru sögð hefur Katrín Jakobsdóttir verið forsætisráðherra.

Í áramótaávarpi sínu segir forsætisráðherra svo: “við eigum í öllum okkar verkum að stefna að því útrýma fátækt sem er samfélagsmein sem á ekki að líðast í okkar samfélagi”. Það er því kannski eðlilegt að spyrja, hvað hefur breyst á þessum 5 árum?

Samkvæmt Velferðarvakt stjórnvalda bjuggu 1,3 - 3% landsmanna við sárafátækt árið 2016. Ekki bara fátækt, heldur sárafátækt. Ekki eru til nýjar tölur um þetta en Hagstofan heldur utan um tölfræði vegna skorts á efnahagslegum gæðum. Það er mælt samkvæmt stöðlum Eurostat og eiga við fólk sem þrjú atriði af níu atriða lista eiga við: 1. Vanskil vegna fjárskorts. 2. Hefur ekki efni á vikulöngu fríi. 3. hefur ekki efni á næringaríkri máltíð amk. annan hvern dag. 4. Getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. 5. Hefur ekki efni á síma. 6. Hefur ekki efni á sjónvarpi. 7. Hefur ekki efni á þvottavél. 8. Hefur ekki efni á húshitun.

Á árinu 2017 voru 5,2% fólks á Íslandi sem bjuggu við efnislegan skort samkvæmt þessum stöðlum og árið 2021 hafði þeim fækkað niður í 3,7%. Ágætis árangur í heildina á litið er það ekki? Þó að nokkrir hópar hafa það hins vegar verra á meðan aðrir hafa það betra þá er fátækt að finna í öllum aldurshópum. Almennt hafa karlar það verr en konur og staðan hjá yngra fólki hefur versnað en batnað hjá eldra fólki.

En hérna vantar árið 2022! Það er mjög mikilvægt ár því þá reyndi í fyrsta sinn í langan tíma verulega á efnahag margra vegna verðbólgu. Upplýsingar frá stjórnvöldum sýna líka að ráðstöfunartekjur minnkuðu um 90 þúsund krónur á mann. Staðan gæti því verið allt öðruvísi en tölur Hagstofunnar gefa til kynna.

Það er því viðeigandi að spyrja, hversu lengi á fólk að bíða fyrst þetta er ólíðandi ástand? Það er nefnilega ekkert í áætlunum stjórnvalda um að útrýma fátækt. Það er talað um að fækka börnum sem búa við fátækt og draga úr neikvæðum áhrifum fátæktar (sem hljómar eins og fátækt eigi að vera viðvarandi). Það er hvergi sagt “útrýma fátækt” sem sjálfstætt markmið og mat á því hvað þarf til.

Er ekki kominn tími til þess, fimm árum eftir að enginn er beðinn eftir að bíða, að forsætisráðherra segi það berum orðum hvenær biðinni lýkur?