Að meina það sem þú segir
Tungumál er flókið fyrirbæri til samskipta. Fólk getur svarað á kaldhæðinn, ljóðrænan, háleitan og beinskeittann hátt - og á svo marga aðra vegu að ómögulegt er að telja það upp í stuttum pistli. Ofan á alla þessa mismunandi möguleikar til samskipta bætist við að orðanotkun fólks er ekki nákvæm. Fólk leggur mismunandi skilning í ýmis orð, eftir aðstæðum og áherslum. Það er hægt að nota orð af varkárni eða með sannfæringu og allt hefur þetta áhrif á það hvaða merkingu áheyrendur meðtaka.
Svo getur verið mismunandi hvort fólk sjái þann sem er að tala, og þá getur látbragð og líkamstjáning haft enn meiri áhrif á þann boðskap sem mælandi flytur. Nokkurs konar andstæða við það er skriflegur flutningur, þar sem hægt er að greina nákvæmlega hvaða orð voru notuð í bæði upphafi og enda greinarinnar.
Útlit þess sem talar getur líka haft áhrif. Nákvæmlega sama ræða, flutt af fólki sem lítur mismunandi út. Karli og konu. Einhver stór eða lítil. Fögur eða ekki. Allt hefur þetta áhrif á hvað er verið að reyna að segja og hvað er meðtekið. Heyrist hroki í ræðu eins en ekki annars, þrátt fyrir að þau séu að segja nákvæmlega sömu orðin? Það breytir merkingunni fyrir þau sem á heyra.
Að mínu mati er þetta eitt helsta vandamál sem við glímum við í stjórnmálum. Hvernig á að koma skilaboðum á framfæri til allra á heiðarlegan og óhlutdrægan hátt. En vandinn er að fólk heyrir það sem ég er að segja öðruvísi af því að ég er Pírati, sama hvað ég segi þá komast skilaboðin ekki á framfæri til allra.
Ég upplifði það fyrir nokkrum árum síðan að sjóaður stjórnmálamaður sagði við mig að “við veljum bara þau rök sem henta okkar málflutningi”. Davíð Oddsson sagði forðum að hann hefði hjólað í öll mál, sama hvað honum fannst um málið í hjarta sér. Fjármálaráðherra sagði um daginn að það væri freistandi að kjósa gegn tillögum stjórnarandstöðunnar, “svona prinsippsins vegna”.
Þetta eru sjónarmið sem mér finnst forkastanleg í stjórnmálum. Þau sýna hversu ómálefnaleg stjórnmálin eru - og það kaldhæðnislega við allt saman er að þau sem eru á þessari skoðun telja væntanlega alla aðra stunda svona stjórnmál. Þannig að þegar maður reynir að nálgast málin út frá málefnalegum sjónarmiðum þá heyrir það enginn af því að fólk álítur málflutning manns einungis vera þessa málfundakeppni um rök sem henta.
Ég áttaði mig á því um daginn að það skiptir því miður allt of litlu hvað ég segi, það skiptir í alvörunni meira máli hvernig ég segi það - og mér finnst það mjög sorglegt og ég veit ekki hvernig er hægt að laga það. Það eina sem ég get gert er að tjá einlæga skoðun mína á eins heiðarlegan hátt og ég get og vonað að það komist til skila.
Gleðileg jól og farsælt komandi ár.